Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:18:33 (415)

1996-10-17 12:18:33# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., ÓE
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:18]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hún var ekki aðeins sérkennileg heldur þótti mér hún vera hv. þm. til vansa.

Hann ásakar samþingmenn sína, forsætisnefndarmenn, um lögbrot. Hann fullyrðir að forsætisnefndarmenn hafi brotið lög, fjárlög í þessu tilviki, með því að halda áfram framkvæmdum við endurbyggingu Kirkjustrætishúsanna án þess að hafa til þess heimildir í fjárlögum. Ég get svo sem skilið þessa fullyrðingu hv. þm. ef hann hefur ekkert annað fyrir sér en það sem stendur í greinargerð með fjáraukalagafrv. Ég verð að segja alveg eins og er að sú greinargerð er ekki samin af mikilli velvild í garð þingsins svo ég kveði ekki fastar að orði.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að forsn. þingsins fór fram á það við gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár að öll fjárhæðin yrði tekin inn. Hins vegar varð að samkomulagi í fjárlaganefndinni milli fjárln. og forsn. að upphæðinni skyldi skipt. Þegar verkið var hins vegar boðið út voru hafðir þeir kostir í útboðinu að verkinu yrði að fullu lokið en það yrði ekki að fullu greitt fyrr en á næsta ári og ekki greitt meira við framkvæmdirnar en fjárlög heimiluðu. Þetta liggur allt fyrir þannig að ég vísa því algjörlega á bug að forsn. hafi með ráðnum hug farið fram úr fjárlögum.

Hins vegar lá líka fyrir að forsn. var ekki að reisa einhver pótemkintjöld. Húsin voru endurbyggð að ytra byrði í fyrra og auðvitað lá alltaf ljóst fyrir að haldið yrði áfram með verkið, innréttingum yrði jafnframt lokið. Það lá fyrir í drögum að fjárlagafrv. fyrir árið 1997 að á fjárlög 1997 yrði sótt það sem á vantaði. Það hefur hins vegar verið fellt brott vegna þess að upphæðin öll er tekin inn í fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu. Þessu vil ég koma mjög ákveðið til skila.

En ég verð að þessu gefna tilefni að fara nokkrum fleiri orðum um málið allt saman. Um tíma var ætlunin að rífa þessi hús og gert ráð fyrir því þegar samkeppni var haldin um framtíðarbyggingu á Alþingisreitnum. Frá þeim byggingaráformum var hins vegar fallið. Þessi hús höfðu verið Alþingi til vansæmdar í áraraðir vegna þess að á þeim var ekkert viðhald. Hins vegar, þegar fallið var frá þessum byggingaráformum við Kirkjustrætið, lá ekkert annað fyrir en að Alþingi sýndi gott fordæmi og endurbyggði þessi hús og ég hef sagt það áður og get endurtekið það hér að ég teldi það hefði orðið menningarlegt slys ef húsin hefðu verið rifin. Ég tel að það sé Alþingi til sóma að hafa staðið að endurbyggingu húsanna eins og hefur verið gert og fyrir það hefur raunar Alþingi fengið þakklæti frá ýmsum aðilum sem ég fer ekki að telja upp hér og nú.

Ég bendi líka á að deiliskipulag Kvosarinnar gerði ráð fyrir að þessi hús stæðu. Húsafriðunarnefnd hafði lagt mikla áherslu á að húsin yrðu endurbyggð. Allur undirbúningur að verkinu var mjög vandaður og í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir og framkvæmdirnar gerðar í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Hv. þm. gerði þennan kostnað svo að umtalsefni og var með alls konar reikningskúnstir í sambandi við það hvað þetta kostaði á mann. Hann er að vísu ekki alveg með réttar tölur. Þarna er vinnuaðstaða fyrir 20 manns, þingmenn og starfsmenn Alþingis, ekki 18. Auk þess er þarna fundaraðstaða og þar er verulegt geymslurými, m.a. fyrir hluta af verðmætu skjalasafni Alþingis sem þarna verður komið fyrir. Það eru því rangir útreikningar að deila með 18 í þessa heildarkostnaðartölu. Fleira fer þarna fram en bara að koma fyrir 18 manns. Auðvitað eru þetta háar upphæðir, ég skal ekki draga úr því, 130 milljónir. Þarna stendur að vísu 134 milljónir sem byggist á misskilningi sem skiptir svo sem ekki máli í þessu samhengi. Auðvitað eru gerðar aðrar kröfur til bygginga í miðborg en sums staðar annars staðar og hér er um að ræða endurgerð á handverki sem að mörgu leyti er einstakt. Það er ekki verið að búa til neinar fornminjar. Auðvitað er það svo þegar verið er að endurgera gömul hús að ýmsar nýjar spýtur eru settar inn. Auðvitað er það gert. Það er ekkert sérstakt með þessi hús. Það gerist alltaf þegar verið er að endurgera gömul hús.

Herra forseti. Ég vísa því algjörlega á bug að hér sé um óráðsíu og bruðl að ræða eins og hv. þm. orðaði það. Ég vísa því algjörlega á bug. Ég skil ekki þessa óvild í garð þingsins frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég hef að vísu ekki hugmynd um við hvaða aðstæður hann hefur búið á sínum fyrri vinnustað. En ég veit hins vegar við hvaða aðstæður ýmsir þingmenn hafa mátt búa og ég tala ekki um starfsmenn þingsins. Þetta er liður í því að bæta aðstöðuna og það er fullkomin þörf á því.