Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:29:06 (459)

1996-10-17 16:29:06# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það koma fram upplýsingar um það, ef ég hef skilið hv. þm. rétt, að stjórn ÁTVR eða forstjóri ÁTVR hefur látið tóbaksvarnanefnd vita af þessum breytingum sem hafa verið í aðsigi um nokkuð margra mánaða skeið, þannig að þá er svarað fyrirspurn sem áður hafði verið beint til mín og þakka ég hv. þm. fyrir að gera það fyrir mig.

Ég hef hvergi sagt að þetta væri aukaatriði. Ég hef þvert á móti sagt að við töldum okkur skylt að breyta innkaupareglum vegna þess aðalatriðis að við værum ella að brjóta íslensk lög. Það er ekkert aukaatriði að standa og falla með íslenskum lögum. Það er bara aðalatriði málsins.

Þetta er ekki heldur reglugerð sem er gefin út af ráðuneytinu eins og hver önnur reglugerð. Samkvæmt lögunum er það stjórnin eða ÁTVR sem gefur út innkaupareglurnar en ráðuneytið staðfestir þar. Og ástæðu þeirrar staðfestingar er að leita í stjórnsýslulögunum til þess að þeir sem eru viðskiptamenn stofnunarinnar geti byggt sinn rétt á innkaupareglunum ef þeir vilja kæra með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins. Það kann að vera að þingmönnum þykir þetta framandi, en það er einu sinni þannig að við samþykkjum hér lög og reglur um það hvernig eigi að lifa lífinu í þessu landi og svo þegar kemur að því að fylgja lögum og reglum, þá verða ráðuneytin að gera það ef þau telja að þeim sé það skylt að bestu manna yfirsýn.