Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:28:44 (477)

1996-10-17 17:28:44# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:28]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær ábendingar sem komu fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Hún talaði um að í Danmörku væri sérstök tóbaksvarnavika. Hér á landi er alltaf tóbakslaus dagur einu sinni á ári og mikið í kringum hann en það er greinilegt að það dugar ekki. Dönum veitir nú ekki af að hafa heila viku því að þeir hafa eiginlega heimsmet í reykingum og annarri óreglu.

Allar ábendingar um hvernig við getum komið jákvæðum áróðri fram eru vel þegnar. Nú er meira fjármagn til en nokkru sinni fyrr til tóbaksvarna og við eigum auðvitað að beita þeim ráðum sem við höfum til að fræða og hafa eftirlit með því að ungt fólk sem er undir 18 ára aldri kaupi ekki tóbak því að lögin kveða svo á um.