För sjávarútvegsráðherra til Japans

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:08:32 (497)

1996-10-28 15:08:32# 121. lþ. 11.2 fundur 47#B för sjávarútvegsráðherra til Japans# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, vegna frétta fyrr í þessum mánuði um ferð hans með stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna til Japans. Ég fagna því að ráðherrar fari í ferðir af þessu tagi. Ég tel þær geta verið afar mikilvægar fyrir íslensk fyrirtæki og að það geti skapað þeim sérstaka viðskiptavild þegar ráðherra er með í för og opnað þeim sambönd sem ella væru þeim ekki opin. Þannig veit ég að ferðir Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh., til Kóreu í ár og til Kína í fyrra hafa verið fyrirtækjum sem áttu fulltrúa í þeim ferðum mjög mikilvægar.

Nú geri ég ráð fyrir að för hæstv. ráðherra hafi verið á kostnað ráðuneytis hans og þannig kostuð af opinberu fé. Ef svo er ekki bið ég hæstv. ráðherra að leiðrétta það. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort íslenskum fyrirtækjum sem selja sjávarafurðir á Japansmarkaði, öðrum en SH, hafi verið gefinn kostur á að nýta sér þessa ferð hans til Japans. Þar vil ég nefna sem dæmi fyrirtæki eins og Íslenskar sjávarafurðir sem á þessu ári eru að opna skrifstofu í Japan. Var þeim og e.t.v. öðrum íslenskum fyrirtækjum á Japansmarkaði boðið að nýta sér þessa ferð ráðherrans?