Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:25:01 (523)

1996-10-28 16:25:01# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:25]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Öll umræðan um veiðileyfagjaldið er ótrúleg þráhyggja. Ótrúleg þráhyggja sem líklega má flokkast undir það að vera þjóðfélagslega hættuleg vegna þess að margs konar vandamál sem við blasa í fiskveiðistjórn og öðrum málum falla í skuggann af þeirri síbylju sem menn hafa hrópað árum saman um veiðileyfagjald án þess nokkurn tíma að útfæra til hlítar hvernig slíkt veiðileyfigjald ætti að vera. Það hefur öll þessi ár byggst á því, eins og hv. þm., flm. tillögunnar, hefur bent hér á, að það hefur alltaf verið spurning um heimspeki og spekúlasjónir, að viðurkenna heimspekilega aðferð við stjórnun fiskveiða með því að setja á veiðileyfagjald sem enginn veit hvernig er og enginn hefur viljað leggja á sig að útfæra eða treyst sér til.

Alþýðuflokksjafnaðarmanna, frjálslyndra og vinstri manna þjóð\-vakaflokkurinn hefur verið með gylliboð á mörgum þáttum án þess að útfæra hvað hann meinti eða hvernig hann gæti staðið við þau, hvort sem rætt er um tilboð í síðustu kosningum um að inngöngu Íslendinga í Evrópubandalagið fylgdu gull og grænir skógar, partí og siglingar og skemmtilegheit fyrir unga fólkið í landinu sem átti flykkja sér til Evrópu að loknu farsælu námi heima á Íslandi. Þannig voru auglýsingar Alþfl. fyrir síðustu kosningar og bera svolítinn keim af þeim gylliboðum sem Alþfl. hefur borið fram með eilífu tuði um veiðileyfagjaldið.

Það er alveg rétt að mikil og vaxandi tortryggni er í landinu í dag vegna fiskveiðistjórnunar og atriða sem lúta að þeim málum. Við því þarf að bregðast. Það er alveg rétt. Og það er ekki boðlegt þegar sú staða er komin upp í svo mikilvægu hagsmunamáli að mikill urgur er í landsmönnum og tortryggni. En það þýðir ekki að stilla upp veiðileyfagjaldi eins og einhverjum lottóvinningi fyrir fólkið í fiskvinnslunni eða fólkið í borginni þegar menn hafa ekki rök fyrir því eða ástæðu til að setja það í fyrstu röð vegna þess að það er í rauninni að verið að afmennta fólk, rugla fólk í ríminu með því að hamra sífellt á því að hugmyndafræðilegt veiðileyfagjald umfram núverandi skattheimtu sé einhver lausn á þessari tortryggni og úlfúð meðal landsmanna í dag.

Það eru mörg atriði sem þarf að skoða fyrst. Það eru margir agnúar og mörg atriði í tortryggni sem þarf að útskýra og fara yfir þannig að dregið verði í land með þá úlfúð sem er að aukast. Þau vandamál eru ekki veiðileyfagjald. Veiðileyfagjald er hugsanlega hugmyndafræðilegt hugtak inn í framtíðina, breyting á skattheimtu og menn ættu að fara að slaka svolítið á klónni í þeim efnum og snúa sér að því sem veldur tortryggninni. Það væri skemmtilegt ef til að mynda þessir dugmiklu veiðileyfagjaldsmenn fjölluðu ítarlega um það hvar vandinn liggur í kvótasölunni. Hvað um tegundaskiptin? Hvað um skerðingu á útflutning? Hvað um það hve miklum fiski er hent og hve miklum fiski er landað svörtum? Hvað um afskriftir vegna kvótakaupa sem kann að vera löglegt en siðlaust? Hvað um verðmætaaukningu í fjárfestingu án þess að nokkur verðmæti séu á bak við, í stuttu máli hækkun kvótans á einu ári án þess að verðmætaaukningin sé borðleggjandi? Það má velta fyrir sér þróuninni sem á sér stað varðandi fjölda í útgerð, dreifingu áhættunnar, stöðu byggðanna, stöðu sjómanna og fiskverkafólks vegna þess að í öllum þessum þáttum mundi veiðileyfagjald, hvernig svo sem það yrði útfært, auka tortryggnina, auka vandann og færa yfir á færri hendur það sem menn síst vilja, því þar liggja burðirnir í dag til þess að ganga fram fyrir skjöldu og taka fram fyrir þá sem minna mega sín.

[16:30]

En að útfæra það. Nei nei. Bara lottó, lottó á laugardaginn, veiðileyfagjald. Hvað eru árin orðin mörg sem hv. formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, hefur tíst á þessu veiðileyfagjaldi? (SvG: Og Morgunblaðið.) Það er alveg sama hver á í hlut, hv. þm. Svavar Gestsson. Það er falsvon að byggja umræðuna á þessu eina orði, veiðileyfagjaldi, vegna þess að það er svo augljóst og enginn neitar því að það kann að vera síðari tíma mál að breyta skattheimtu í sjávarútvegi. En það er bara ekki bundið við veiðileyfagjald. Það er bundið við almenn atriði sem rök eru fyrir og eiga að byggjast á kerfi sem er ásættanlegt fyrir landsmenn í heild.

Það eru til að mynda spurningar um það í íslenskum sjávarútvegi í dag hvað það er æskileg og eðlileg þróun fyrir íslenskt samfélag að íslenskar útgerðir séu að fjárfesta í öðrum heimsálfum. Það kann að vera af hinu góða. Það er bæði jákvætt og neikvætt. En það er ástæða til þess að skoða ofan í kjölinn hvernig þetta er að þróast, hvort við erum að semja af okkur eða hvort við erum að ganga út á eitthvað sem við ráðum ekki við miðað við það að ætla okkur búsetu í þessu landi.

Þess vegna vil ég, herra forseti, hvetja til þess að þeir sem hafa um sinn verið haldnir þeirri þráhyggju í draumum og vöku að allt snúist um veiðileyfagjald fari að slaka eilítið á.