Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:36:45 (527)

1996-10-28 16:36:45# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem telja þessa umræðu hafa verið að mörgu leyti gagnlega. Hún hefur sömuleiðis skýrt ýmislegt og varpað ljósi á það sem ekki liggur fyrir í þessu máli. Ég tel að það hafi sýnt sig hér og sannast mjög rækilega að veiðileyfagjald er ekkert lausnarorð. Það er ekkert töfraorð. Það er engin töfrafyrirsögn sem hægt er að bregða á loft og þar með rakni vandamálin upp, hverfi eins og dögg fyrir sólu.

Það hefur í öðru lagi komið mjög skýrt fram og það hafa flutningsmenn að verulegu leyti viðurkennt nú þegar liðið hefur á umræðuna, að veiðileyfagjaldið er ekki gullgerðarvél. Það býr ekki til verðmæti úr engu. Það verða ekki til nein ný og sjálfstæð verðmæti í íslenskum efnahagsbúskap eða þjóðlífi þó að eitthvað sem kallað er veiðileyfagjald verði lagt á.

Í þriðja lagi og það skiptir kannski mestu máli miðað við það hvernig umræðan hefur legið á undanförnum missirum: Veiðileyfagjald leysir ekki þau vandamál núverandi stjórnkerfis fiskveiða sem mest eru milli tannanna á mönnum og valda óánægju. Það gerir það ekki. Þvert á móti má færa fyrir því sannfærandi rök að veiðileyfagjald, a.m.k. ef mönnum yrðu mislagðar hendur með álagningu þess, gæti gert þar illt vera.

Vegna þess að síðustu ræðumenn voru að segja reynslusögur úr Vestmannaeyjum, þá er rétt að bæta einni við.

Þau stórtíðindi gerðust fyrir skömmu að ungir menn hófu útgerð í Vestmannaeyjum. Því miður eru það tíðindi. Þeir voru spurðir að því hvernig í ósköpunum þeir færu að þessu. Þeir keyptu bát og höfðu afar litlar veiðiheimildir en ætluðu samt að reyna. Jú, þeir ætluðu að reyna að nýta alla möguleika, bæði veiðar á tegundum utan kvóta og leigja sér veiðiheimildir og reyna að skapa sér þannig grundvöll og vinna sig upp eins og menn hafa reyndar alltaf þurft að gera og er ekkert nýtt í því. Þá voru þessir ágætu ungu menn spurðir: Já, en viljið þið þá ekki veiðileyfagjald? Nei, sögðu þeir. Það mundi gera illt verra. Nógu erfitt er þetta fyrir okkur þó að það bættist ekki við að við þyrftum að fara að borga veiðileyfagjald. Þá verður enn erfiðara fyrir okkur að komast af stað, sögðu þessir ungu menn úr Vestmannaeyjum. Ég get fundið tilvitnanir um þetta bæði í blöðum og fréttaviðtölum ef menn vilja, nokkurra vikna gamlar.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að gamalt máltæki íslenskt og algilt segir: Það eyðist sem af er tekið. Auðvitað er það þannig að menn taka ekki verðmæti út á atvinnugrein, hvorki í sjávarútvegi né annarri án þess að þess sjái einhvers staðar stað. Þau verða nefnilega ekki til af engu.

Og ég vil segja nokkur orð út af hinu mikla góðæri í sjávarútveginum sem menn hafa áhyggjur af, hinu mikla góðæri og þessari miklu uppsveiflu í sjávarútveginum. Ég vildi að satt væri, þ.e. að þetta sé svo mikið að það stefni stöðugleikanum í hættu. Því miður er það a.m.k. ekki þannig að góðærið sé í hefðbundinni landvinnslu sjávarútvegs, þeirri umsvifamestu grein fiskvinnslunnar sem haldið hefur uppi atvinnu og skapað þúsundir starfa á umliðnum árum og áratugum í landi. Það er ekki svo. Hún er meira og minna á undanhaldi og að leggjast af. Ég verð ekki var við að það fari mjög mikið fyrir hinu mikla góðæri í sjávarútveginum á Vestfjörðum þessa dagana, a.m.k. ekki á sunnanverðum Vestfjörðum. Því miður er góðærið á undanhaldi í rækjunni sem er orðin önnur mikilvægasta útflutningstegund íslenskrar sjávarvöru í dag. Því miður. Þar er mikil birgðasöfnun og menn sem til þekkja hafa komið að fullum frystigeymslum þar sem margra mánaða framleiðsla liggur óseld í birgðum. Þannig er nú það því miður.

Varðandi sveiflujöfnun sem menn ræða í þessu samhengi, þá er það nokkuð sérkennilegt að við skulum á árinu 1996 vera aftur farin að ræða miðstýrða ofan frá ákvarðanatöku af því tagi að það eigi að þvinga inn í sjávarútveginn sveiflujöfnun í gegnum veiðileyfagjald. Ég hélt að menn væru þvert á móti að tala um að hverfa frá slíku yfir í það að sveiflujöfnunin gerðist í fyrirtækjunum sjálfum, innan greinarinnar sem slíkrar á sjálfstæðum forsendum, ekki síst í gegnum sterkari eiginfjárstöðu fyrirtækjanna sem þyldu þar af leiðandi sveiflur í afkomu eða þá á bundnum reikningum viðkomandi fyrirtækja en ekki í gegnum gamaldags verðjöfnunarhugmyndir af því tagi sem Verðjöfnunarsjóðurinn var eða er. En það væri slík allsherjargjaldlagning sem þarna er verið að tala um.

Auðvitað yrði þetta gjald íþyngjandi. Það er sú staðreynd sem veldur því að samtök sjómanna og fiskverkafólks eru ekki talsmenn þessarar gjaldtöku sérstaklega sem þó er borin fram með sérstökum réttlætisrökum. Ég hygg að þeir sem hefðu þó mestar ástæður til þess að hafa hér áhyggjur séu talsmenn minni byggðarlaga sem eiga í nægri vök að verjast eins og þetta er þó ekki kæmu til íþyngjandi aðgerðir af þessu tagi. Enda er það engin tilviljun að einu aðilarnir innan íslensks sjávarútvegs sem á annað borð hafa tekið undir þessar gjaldtökuhugmyndir --- hverjir eru það? Eru það kvótalausir einyrkjar? Eru það sjómenn? Er það fiskverkafólk? Nei, það eru talsmenn úr efnahagslega sterkustu og ríkustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Einu mennirnir sem mér er kunnugt um að hafi eitthvað tekið undir þessar hugmyndir koma úr þeirri átt. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að þar fara aðilar sem vita að þeir einir hafa efnahagslega burði til að þola gjaldið ef það verður lagt á og yrðu ofan á í enn ríkari mæli en hingað til ef gjaldið kæmi. Þannig er nú það.

Ég minni líka á þá gjaldtöku sem nú þegar er búið að leggja á sjávarútveginn. Er mönnum það ekkert umhugsunarefni að þó að sæmilega hafi árað í vissum greinum sjávarútvegsins nú um skeið, sem betur fer --- á því fljóta flest fyrirtækin í dag sem hafa einhverja afkomu. Það hafa verið góðar loðnuvertíðir, uppgangur í veiðum og vinnslu uppsjávarfiska og sæmilegt árferði í rækjuiðnaðinum tvö undanfarin ár --- þá hefur þetta að öðru leyti verið varnarbarátta eins og lengstum hjá flestum fyrirtækjunum. Þarna er því ekki um neina sérstaka nýja gullnámu að hafa, herra forseti. Ég held þess vegna að menn eigi að horfa á það að sjávarútveginum veitir ekki af sínum tekjum á komandi árum til að styrkja stöðu sína og eiga möguleika á að sækja fram, beisla ný tækifæri sem við skulum vona fyrir okkar allra hönd að séu áfram ónýtt í sjávarútvegi.

Tryggingagjaldið sem nú á að leggja á greinina mun leggjast mjög íþyngjandi á sjávarútveginn. Það er búið að leggja á hann gjöld sem nema 700--800 millj. núna á skömmum tíma í formi veiðileyfagjaldsins sem fyrir er og í formi þess að veiðieftirlitsgjald var fært yfir á greinina í tveimur áföngum o.s.frv.

Að síðustu, herra forseti, er mikið rætt um arðinn sem þjóðin þurfi að hafa af sjávarútveginum. Ég spyr mig stundum: Eru menn búnir að gleyma því að þetta er atvinnugreinin sem færir þjóðinni milli 70--80% af gjaldeyristekjum fyrir vöruútflutning? Þetta er greinin sem skaffar meira en 50%, ein 55% af heildargjaldeyristekjum þessarar þjóðar. Það er iðulega sagt á hátíðisstundum, a.m.k. á sjómannadaginn, að þjóðin lifi á sjávarútvegi og er að verulegu leyti rétt. Og ég spyr þá að lokum: Er hægt að hafa meiri arð af einni atvinnugrein? Getur ein þjóð lifað í bókstaflegum skilningi á og haft meiri arð af atvinnugrein en með því að lifa á henni? Það er mjög vandséð, herra forseti, held ég að grein sem stendur í bókstaflegum skilningi að verulegu leyti undir efnahagslífi einnar sjálfstæðrar þjóðar, að það sé sérstakt vandamál fyrir þá hina sömu þjóð að ná arðinum af þeirri grein sem hún lifir á. Þetta hef ég ekki fengið til að ganga upp í minni takmörkuðu hagfræði. Ef menn telja afkomu einstakra fyrirtækja vera að fara úr böndunum í sjávarútvegi, að þau græði of mikla peninga eða séu að fara með hagnað úr landi, þá eru auðvitað til aðrar og vel þekktar aðferðir til þess að taka á því. Það heita skattar og skyldur sem menn eiga þá að leggja á þau fyrirtæki og taka í hina sameiginlegu sjóði. Það er sjálfsagt mál ef afkoma þeirra er orðin slíkt að hún leyfi það.