Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:51:35 (530)

1996-10-28 16:51:35# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. varaði við því að menn væru í þessum umræðum að vitna í einhverja grundvallarafstöðu til efnahagsmála, markaðskerfis, sósíalisma eða einhvers þess háttar. Vel má vera að hann hafi rétt fyrir sér í því, en ég vek hins vegar engu að síður athygli hans á því að hæstv. forsrh. t.d. kallar þá Morgunblaðsmenn sósíalista af því að það vill svo til að þeir eru í grundvallarsjónarmiðum sammála okkur jafnaðarmönnum um auðlindastefnuna og að það beri að koma gjald fyrir nýtingu á auðlind. Margir í liði þeirra sjálfstæðismanna telja að þessar tillögur séu bara kommúnismi og stórhættulegar.

Aðrir snúa þessu beint við og segja: Nei, við erum akkúrat að innleiða markaðslausnir í staðinn fyrir skömmtunarkerfi þannig að þetta er auðvitað partur af umræðunni. En honum varð heldur betur á í messunni þegar hann fór að líkja þessari auðlindanýtingu við venjulegan sjoppurekstur því að sá sem ætlar að skipta um starf og fara að opna sjoppuna þarf annaðhvort að kaupa eða leigja, en hann er í allt annarri stöðu en sá sem vill hasla sér völl í sjávarútvegi.

Ef hins vegar svo háttaði til að núverandi hæstv. ríkisstjórn ætti allt verslunarhúsnæði í landinu og alla aðstöðu til verslunarrekstrar, úthlutaði leyfum til þess tiltölulega fámennum hópi miðað við einhverja meðaltalsreglu aftur í tímann og þeir sem leyfin fengju mættu síðan selja þau og leigja þau, þá væri líkingin rétt dregin. En að segja að öllum sé frjáls aðgangur í sjávarútveginum, já, já. Það heitir svo að þjóðin eigi þessa auðlind sameiginlega og það geti allir haslað sér völl sem hafa veiðiheimildir en sumir fá þær ókeypis en sumir verða að kaupa. Af því hlýst mismunun, þ.e. hindrun á aðgengi í greininni og af því hlýst samkeppnismismunun sem er grundvallarbrot á grundvallarreglum eðlilegra samkeppnishátta í markaðsþjóðfélagi. Með öðrum orðum, pólitískt forræði og skömmtunarstjórn, forréttindi til hinna fáu en útilokun hinna mörgu.

Þessi mismunun hefur margvíslegar aðrar afleiðingar. Arðsemin í sjávarútveginum er í stórum stíl líka að leiða til þess að menn eru að beina henni til þess að kaupa suma kvótahafa sem fengu ókeypis úthlutun út úr sjávarútveginum. Með öðrum orðum rennur sá arður út úr greininni að sumu leyti innan lands en jafnframt er þetta auðvitað skýringin á fjárfestingum erlendis. En eftir stendur, og það er grundvallargagnrýni á núverandi kerfi út frá spurningunni um hvers konar efnahagsskipun viljum við hafa, að menn sitja ekki við sama borð, menn búa ekki við sömu leikreglur. Mönnum er mismunað.