Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:13:10 (537)

1996-10-28 17:13:10# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:13]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna ummælum hv. þm. Þó ég sé ekki sammála honum nema að hluta til, fannst mér hann fara yfirvegað yfir þetta. Ég tek sérstaklega undir það sem hann sagði um mikilvægi þess að menn skoði þetta í heild, þ.e. taki umræðu um fleiri auðlindir en einungis sjávarútveginn þótt svo hann gerði eins og margir aðrir að taka fiskveiðistjórnunarkerfið inn í þetta, en það höfum við rætt hér áður.

Ég vil hins vegar, herra forseti, vekja athygli á því, þar sem umræðu er að ljúka, að við báðum sérstaklega um að hæstv. forsrh. yrði hér viðstaddur. Mér skilst að hann sé í húsinu. Ég vil vekja athygli á því að hvorugur ráðherra Sjálfstfl., forsrh. eða sjútvrh., hafa séð ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu. Umræðunni er að ljúka. Ég er búinn að tala minn skerf í málinu, ég er búinn að tala tvisvar þannig að ég hefði ekki getað svarað forsrh. ef hann hefði séð ástæðu til að tala um málið. Mér finnst hæstv. forsrh., herra forseti, sýna þinginu fyrirlitningu með því að segja að hér fari fram vitlaus umræða á Alþingi þegar málið kom fyrst til umræðu. Hann sá ekki ástæðu til að taka þátt í henni þá, ekki við framhaldsumræðu og heldur ekki í dag. Mér finnst hann sýna þinginu lítilsvirðingu að mæta ekki til opinna skoðanaskipta um þetta mikla mál. Hann rennur af hólmi nákvæmlega eins og hæstv. sjútvrh. gerir í þessu máli. Þetta eru alvarleg tíðindi og þetta eru mestu pólitísku tíðindin í þessari umræðu, þ.e. sú framganga sjálfstæðisráðherranna að þora ekki að mæta á hinu háa Alþingi og ræða málefni tengd veiðileyfagjaldi.