Öryggi raforkuvirkja

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 13:45:38 (552)

1996-10-29 13:45:38# 121. lþ. 12.5 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[13:45]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér liggur fyrir mál sem búið er að velkjast í kerfinu í nokkuð mörg ár og ég hef haft miklar áhyggjur af og deili þeim áhyggjum með fjölmörgum rafverktökum og öðrum aðilum sem hafa verið að vinna við rafmagnseftirlit undanfarin ár. Áhyggjur mínar byggjast á því að ég tel að mikil hætta sé á að með þessari aðgerð aukist kostnaður verulega fyrir einstaklinga, neytendur í landinu. Það er gert ráð fyrir 6,5 millj. kr. tekjuminnkun hjá ríkinu í þessum málum, eins og kemur fram í skýringum frá fjmrn. En mér er kunnugt um að þar sem framkvæmt hefur verið eftirlit af hálfu skoðunarstofa hefur verðlag fyrir þessa framkvæmd aukist um 100% og meira í sumum tilvikum. Þar sem farið hefur verið út á land og skoðað, bæði í verksmiðjum og hjá einstaklingum, hefur kostnaðaraukinn orðið alveg gífurlegur. Og ég hef miklar áhyggjur af því og spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið gerð úttekt á því hversu mikill kostnaðarauki verður hjá venjulegum heimilum við þessa aðgerð? Mér finnst ástæða til að það komi fram þó svo að talað sé um að neysluveiturnar eigi að greiða ákveðna hluti í þessum málum. Ég spyr: Hvað verður mikill kostnaður sem fer yfir á heimilin vegna þessara aðgerða?