Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:43:59 (594)

1996-10-29 15:43:59# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:43]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt eins og hér hefur komið fram að það er mjög mikilvægt að sæmileg sátt sé um Landsvirkjun. Landsvirkjun er mjög mikilvægt fyrirtæki í okkar þjóðarbúskap, hefur einokunaraðstöðu eins og er og gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í orkuvinnslu og orkudreifingu. Þess vegna held ég að það sé gagnlegt og nauðsynlegt að taka umræður um þá endurskoðun sem hefur farið fram á samstarfssamningi eignaraðila og er tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram. Stjórn Landsvirkjunar hefur ekki komið að þessari vinnu þannig að út frá því hef ég ekki tækifæri til þess að ræða þá skýrslu eða þá niðurstöðu sem liggur fyrir, enda hefur hún birst mér sem trúnaðarmál í dag þannig að um hana verður ekki fjallað í þessari umræðu. Hins vegar hefur verið nokkuð fjallað um þetta í fjölmiðlum engu að síður.

Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að endurskoðun á samstarfssamningi eignaraðilanna verður að vera gerð í bærilegri sátt. Það hefur komið fram hér hjá hæstv. iðnrh. að endurskoðunin fer fram að ósk eignaraðilanna, þ.e. meðal annars R-lista meiri hlutans í Reykjavík og er nauðsynlegt að rifja það upp. En endurskoðunin verður hins vegar að tryggja tiltekin meginatriði, t.d. að tryggð sé eðlileg aðild eignaraðila að rekstri fyrirtækisins. Það verður að tryggja að lækkun orkuverðs náist fram sem er geysilega mikilvægt fyrir hagsmunaaðila, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir, (Forseti hringir.) og síðast en ekki síst verður að treysta og tryggja eðlilegar arðgreiðslur, án þess að þær komi niður á orkuverðinu. Og það vil ég að lokum, virðulegi forseti, segja að sé mjög mikilvægt atriði til þess að um þetta fyrirtæki geti skapast bærileg sátt í þjóðfélaginu.