Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:46:25 (609)

1996-10-30 13:46:25# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ríkur þingvilji stendur til þess innan allra flokka sem eiga fulltrúa í þessum sal að ræða kjördæmamál og kosningatilhögun með það fyrir augum að jafna atkvæðisvægi manna. Ég hygg að það sé skynsamlegt með hliðsjón af því að þessi ríki þingvilji er fyrir hendi að leitast sé við að hafa sem nánast samstarf flokka á milli um að finna leiðir sem sátt geti orðið um. Það er rétt hjá hv. 11. þm. Reykv. að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið skýrt á um þessa þætti en það á ekki að breyta hinu að í fyrstu atrennu, sem kannski verður sú eina, eigi að nota þá aðferð að leitast við að þingflokkarnir og fulltrúar á þeirra vegum leiti leiða til þess að finna tilhögun sem a.m.k. sæmileg sátt geti ríkt um um þessi mikilvægu mál. Enginn einn flokkur getur eignað sér það að vera öðrum fremri hvað þetta málefni varðar. Ríkisstjórnin vill eiga mjög gott samstarf við alla þingflokka um þessa málsmeðferð þannig að það megi ganga fram að aukið jafnvægi náist í þessum málum. Að því verður unnið. Menn hafa þegar komið saman og rætt um vinnutilhögun og vinnufyrirkomulag og ég sé ekki annað en að ríkur vilji standi til þess að vinna vel og skipulega að þessu máli sameiginlega.