Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:59:17 (619)

1996-10-30 13:59:17# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:59]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð fyrirspyrjanda. Mér finnst umræðan hins vegar hafa leitt í ljós djúpstæðan ágreining milli stjórnarflokkanna. Atkvæðisréttur einstaklinga á að vera jafn. Það að þingflokkarnir komi að þessari vinnu núna eins og hæstv. forsrh. boðaði er gott út af fyrir sig en ekki er víst að það leiði til árangurs og reyndar er mjög líklegt að það leiði ekki til árangurs. Hugsanlegt er að taka þetta út úr þessum farvegi, reyna að setja kosningalöggjöfina í annan farveg, t.d. á sérstöku stjórnlagaþingi eða að aðrir einstaklingar komi að þessu. Ég minni á það stefnumál jafnaðarmanna að gera landið að einu kjördæmi. Ýmsir aðrir þingmenn hafa tekið undir það sjónarmið og það er vel. Það er einfaldlega besta lausnin í málinu að gera landið að einu kjördæmi og þeim mun fleiri þingmenn sem sannfærast um það því betra og þá hef ég í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að við finnum ekki farveg til að leiða þetta mál til lykta á þessu þingi.