Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:02:02 (621)

1996-10-30 14:02:02# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. hans mikilvægu svör sem hér hafa komið fram og fagna því að hafist verður handa um starf að þessu mikilvæga máli. Ekki mun af veita því samkomulag þarf að verða um þetta eins og margir hafa látið koma fram í máli sínu og slíkt samkomulag tekur tíma eins og við þekkjum öll.

Okkur er það öllum ljóst sem höfum talað hér og þeim sem hafa hlustað að það er ekki tími til þess að fara í djúpa og efnismikla umfjöllun. Menn verða að láta sér nægja fyrirsagnir og samandregin orð. Það sem kom fram í mínu máli voru einmitt aðalatriðin sem snerta þetta mál og þar er því um kjarna málsins að ræða en ekki sleggjudóma og því síður ónot til þeirra sem ég þó virði og þeirra skoðanir allar um rétt sinn hér á þingi og sinna umbjóðenda og sinna kjördæma.

Ég tek undir með hv. þm. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni. Það er rétt að þingflokkarnir hafa jafnt vægi hér en því miður dugir það ekki eins og ég kom hér að. Við erum hér að ræða um miklu meiri hagsmuni, hagsmuni sem snerta efnahagsmál, samgöngumál og grundvallarréttindi í lýðræðinu. En ég fagna því að hafist verður handa og þessu máli lokið farsællega í góðu samkomulagi á þingi fyrir lok þessa kjörtímabils.