Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:16:33 (628)

1996-10-30 14:16:33# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:16]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um tók Alþingi ákvörðun um það á sl. vori að afnema svonefnda línutvöföldun, en þar var um að ræða millifærslu í fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem bátar og skip á aflahlutdeildarkerfinu létu af hendi nokkrar fiskveiðiheimildir til þess að línuskip gætu stundað veiðar í sóknarmarki.

Þau atriði sem lágu helst til grundvallar þegar þessi breyting var gerð miðuðu auðvitað að því að búa til heilsteyptara kerfi án þess að vera að blanda saman margs konar kerfum og þannig að allir byggju við sömu leikreglur og millifærslu af þessu tagi innan kerfisins yrði hætt. Það var auðvitað meginforsenda þeirrar breytingar og hafði lengi verið til umræðu innan sjávarútvegsins þó sitt hafi sýnst hverjum í þessu efni.

Annað takmark sem menn settu sér var að auka hagkvæmni í veiðunum því að sóknarmarksveiði með þessum hætti hefur sama ágalla og veiðar í sóknarmarki við aðrar aðstæður. Þær kalla á aukna fjárfestingu og leiða smám saman til þess að veiðarnar verða óhagkvæmar, enda voru menn að ná þessum afla á stöðugt styttri tíma.

Þriðja atriðið sem menn nefndu í vor var það að línutvöföldunin hefði áhrif til þess að hækka kvótaverð.

Fjórða atriðið laut að því að línutvöföldunin píndi menn til þess að veiða þennan hluta þorskveiðiheimildanna á tiltölulega skömmum tíma. Þeir gætu ekki dreift veiðinni yfir lengri tíma og það gerði það að verkum að menn ættu ekki þorsk út allt fiskveiðiárið sem meðafla á öðrum veiðum og það leiddi til mjög slæmrar umgengni um fiskveiðiauðlindina.

Fimmta atriðið voru sjónarmið sem fram komu frá fiskvinnslunni um að það væri mikilvægt fyrir fiskvinnsluna að geta dreift vinnslu á þessum afurðum á lengri tíma.

Nú er mjög skammur tími liðinn frá því að þessar breytingar voru gerðar þannig að það er erfitt að leggja dóm á það hvort þessi markmið hafi náðst. Þó sjáum við á því þegar við horfum á hagkvæmnisjónarmiðin að á þessu fiskveiðiári, frá 1. sept. fram til 20. okt., hafa veiðst 2.200 lestir af þorski á línu og það eru 92 bátar sem hafa komið með þennan afla að landi. Í fyrra á sama tíma höfðu veiðst 1.350 lestir og það voru 172 bátar sem komu með þann afla að landi. Núna eru sem sagt nánast helmingi færri bátar að koma með miklu meiri afla að landi. Þetta sýnir glöggt að við erum þarna að ná aukinni hagkvæmni í veiðinni. Línutvöföldunin á verulegan þátt í því þó að þar geti komið fleiri sjónarmið, breytingar á sóknarmunstri smábáta og eins aukinn heildarafli, en hér er um svo afdráttarlausar tölur að ræða að ég held að það sé engum vafa undirorpið að menn hafa þegar séð að þessi breyting skilar meiri hagkvæmni. Við sjáum það á tölum af verði á aflaheimildum, bæði á varanlegum kvóta og leigukvóta, að verðið hefur lækkað mjög verulega, sérstaklega á leigukvótanum. Það er engum vafa undirorpið að línutvöföldunin á verulegan hlut í þeirri breytingu.

Það þarf að minni hyggju lengri tíma til þess að meta það hvort þau markmið nást sem að var stefnt, að afnám línutvöföldunar mundi stuðla að betri umgengni með því að menn gætu dreift veiðinni á lengri tíma og eins að því er varðar fiskvinnsluna. Það er þess vegna allt of snemmt að framkvæma athuganir á þessari breytingu, en það kann vel að koma til álita þegar full reynsla er komin að fela Sjávarútvegsstofnun Háskólans eða Háskólanum á Akureyri að gera á þessu könnun. Í þessu efni eins og öðru er mikilvægt að menn læri af reynslunni, en þær vísbendingar sem við höfum af þessari breytingu til þessa benda til þess að menn séu að ná þeim markmiðum sem að var stefnt og að breytingin hafi skilað árangri.