Læknavakt í Hafnarfirði

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:06:04 (647)

1996-10-30 15:06:04# 121. lþ. 14.8 fundur 78. mál: #A læknavakt í Hafnarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég er ákaflega ósáttur með svör hæstv. ráðherra og er henni fullkomlega ósammála um það að þessi mál séu í þvílíku lagi að fullkomið öryggi sé tryggt. Það má því allt eins gagnálykta, eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen gerði áðan, og segja sem svo að fyrirkomulag þessara mála fram undir það síðasta um langt, langt árabil þar sem læknar á vakt í Hafnarfirði og því umdæmi öllu hafa stundum þurft að fara í tugi heimsókna á hafnfirsk heimili á hverri nóttu og veita þar nauðsynlega aðstoð --- að það hafi verið óþarft með öllu. Það er auðvitað eins og hver önnur þvæla og vitleysa.

Ég lýsti því nákvæmlega áðan í inngangi með fyrirspurnum mínum hvernig tilsvörin væru í praxís og það er alveg sama hvers konar umbúnað menn ætla að setja um þennan pakka --- þetta er óviðunandi. Ég benti á foreldri með barn sem hringir í tiltekið númer og fær þau svör að hringja inn á stóru spítalana í Reykjavík, fær þau svör að koma með barnið inn eftir. Þetta er auðvitað ekki þjónusta sem er boðleg. Þetta foreldri vill láta líta á barnið sitt í öryggisskyni en hefur ekki tök á því. Það er ekki eins með foreldri barnsins í Reykjavík. Þar er læknavaktin og hefur verið um langt árabil. Ég hef ekki heyrt hugmyndir um að leggja hana af. Ég neita að trúa því að hæstv. ráðherra heilbrigðismála, sem jafnframt er hjúkrunarfræðingur og þekkir auðvitað praxísinn ekki síður en hinn stjórnunarlega þátt málsins, haldi því fram að þetta sé fyrirkomulag sem búandi er við.

Ég neita líka að trúa því, þó að embættismenn hafi skrifað í hennar tilsvar, að læknar í Hafnarfirði og heilbrigðisyfirvöld í Hafnarfirði séu fullkomlega sátt við þetta ástand mála. Þetta er ástand sem hófst í verkfallinu eða í kjaradeilunum í vor og hefur verið þannig frá þeim tíma að þau mál leystust. Við búum því raunar við óeðlilegt ástand á þessu svæði og ég geri kröfu til þess að hæstv. ráðherra komi með fullnægjandi svör og skýlausar yfirlýsingar um það að úr þessu verði bætt.