Aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:45:02 (664)

1996-10-30 15:45:02# 121. lþ. 14.11 fundur 46. mál: #A aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Af því að fyrirspurnin fjallar um framkvæmdaáætlunina eða kafla í framkvæmdaáætluninni, hygg ég að ég geti ekki alveg fullyrt að ekki hafi verið staðið nákvæmlega eins að kynningu á þeim kafla og staðið hefur verið að kynningu á lögunum sjálfum. En það sem er hins vegar rétt og hefur komið fram aftur og aftur í þessari umræðu er að lagabreytingin gefur mikið tilefni til að fjalla um þessi mál. Það hefur verið gert bæði á grundvelli þessa bæklings og eins vegna hins sem hér hefur komið fram, að lögin hafa tekið breytingum og ný tæki eru í lögunum sem hægt er að nota til að koma í veg fyrir kynjabundinn mismun á launum. Það er áreiðanlega rétt sem má kannski merkja af fyrirspurnunum að það mætti sjálfsagt nota þetta tækifæri betur.

Þá vil ég koma að því að þetta er ekki verkefni sem klárast á örskammri stund. Þetta eru hlutir sem verða til umræðu aftur og aftur ekki síst vegna þess að við vitum að valdið er smám saman að færast meira og meira yfir til forstöðumanna stofnana. Það er ekki bara hjá ríkinu heldur líka hjá Reykjavíkurborg. Við erum í ágætu kapphlaupi einmitt um það mál og ég býst við að sömu sjónarmiðin ríki á báðum stöðum.

Ég vil líka að það komi fram að við ráðherrarnir sem förum með þessi mál höfum rætt saman um það hvort við ættum að hafa samvinnu um þetta. Það hefur engin niðurstaða fengist í þeim viðræðum en það bendir þó til þess að menn viti af því að þetta er mál sem þyrfti að fá betri niðurstöðu.

Það þarf að smíða reglugerð um viðbótarlaunin og að því verður unnið á næstunni. Það starf er á frumstigi og ég tel rétt að bíða með reglugerðarútgáfu þar til eftir kjarasamningana, blanda því ekki saman við kjarasamningana. Af því að hér var sagt að það ætti að semja um þetta þá tel ég að það eigi ekki að gera. Hins vegar á að hafa samráð við launþegasamtökin um þetta.

Ég vil svo að síðustu segja vegna orða sem hér féllu að svipuð launastefna ríkir auðvitað bæði hjá ríki og borg og það er ekki nema eðlilegur hlutur. Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari fyrirspurninni.