Reglur um innritun barna í grunnskóla

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:47:46 (665)

1996-10-30 15:47:46# 121. lþ. 14.12 fundur 84. mál: #A reglur um innritun barna í grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Samkvæmt grunnskólalögum bera forráðamenn barna ábyrgð á að þau innritist í skóla þegar þau komast á skólaaldur. Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og til að gegna öðrum foreldraskyldum. Í barnalögum er mælt fyrir um hverjir fari með forsjá barns en það eru að öllu jöfnu foreldrar barnsins. Við samvistarslit eða skilnað foreldra ber að ákvarða hver fari með forsjá barnsins og kemur þá tvennt til. Forsjá er skipað með þeim hætti að annað foreldri fari með forsjána eða að aðilar semja um að þeir fari sameiginlega með forsjá barnsins. Þegar um sameiginlega forsjá er að ræða ráða báðir foreldrar persónulegum högum barnsins, m.a. dvalarstað, en semja þarf um hvar lögheimili skuli vera. Ef foreldrar hafa ekki samið sérstaklega um annað, er eðlilegt að gera ráð fyrir því að barnið sæki skóla í sínu skólahverfi miðað við sitt lögheimili. En ástæða fyrirspurnarinnar er sú að kveðið hefur að því að foreldri, sem ekki fer með forsjá barns, hafi innritað barn í skóla án atbeina eða samþykkis forsjárforeldris. Einnig hitt að óvissa hefur skapast varðandi heimild til innritunar þegar báðir foreldrar fara með forsjá barnsins. Ef ekki er gerð krafa um að sá sem innritar barnið í skóla hafi til þess heimild getur það leitt til réttaróöryggis fyrir barnið þegar foreldra greinir á. Það kemur einnig í veg fyrir að forsjármaður barns geti sinnt skyldu sinni samkvæmt grunnskólalögum. Ég tel mjög brýnt að taka á þessu máli því réttaróvissa á sviðum sem þessum getur haft ómældar þjáningar í för með sér fyrir barnið þegar foreldrar standa í deilum. Það eru því hagsmunir barnsins sem hér eru að veði en mál sem þessi setja líka skólayfirvöld á hverjum stað í afar erfiða stöðu þegar þau blandast inn í mál og þvælast e.t.v. inn í það að taka efnislega afstöðu í forsjármálum sem ekki heyra undir þeirra verksvið.

Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að bera upp eftirfarandi spurningar við hæstv. menntmrh.:

1. Hvaða ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir að aðrir en forráðamenn barna innriti börn í skóla?

2. Hvaða reglur gilda um innritun barna í grunnskóla þegar foreldrar fara saman með forsjá barnanna?