Reglur um innritun barna í grunnskóla

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:50:35 (666)

1996-10-30 15:50:35# 121. lþ. 14.12 fundur 84. mál: #A reglur um innritun barna í grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir. Þær snerta í raun annað en skólalöggjöfina því þær snerta löggjöfina um forræði yfir börnum og hvernig farið skuli með forsjá barna. En ég get hér svarað því sem lýtur að skólanum.

Fyrsta spurningin er: Hvaða ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir að aðrir en forráðamenn barna innriti þau í grunnskóla? Svarið við þessari spurningu er að engar sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu menntmrn. til að koma í veg fyrir að aðrir en forráðamenn barna innriti þau í grunnskóla því hingað til hefur ekki þótt ástæða til að setja slíkar reglur.

Varðandi síðari spurninguna: Hvaða reglur gilda um innritun barna í grunnskóla þegar foreldrar fara saman með forsjá barnanna? Um það er að segja að í 6. gr. grunnskólalaganna stendur: ,,Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla.`` Og í 12. gr. segir m.a.: ,,Skólanefnd skal sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu.``

Hver sveitarstjórn hefur skyldur gagnvart þeim börnum á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili innan sveitarfélagsins. Komi til álita að barn sæki annan skóla en þann sem lögheimili segir til um verður sveitarstjórn lögheimilissveitarfélagsins að semja um það við annað sveitarfélag svo og um greiðslu kostnaðar. Ábygð á innritun er hjá foreldrum eða forráðamönnum. Skólanum þar sem barn á lögheimili er skylt að taka við því. Það er ekkert sem bannar foreldri að innrita barn í annan skóla en þann sem lögheimili segir til um því að foreldri greiðir allan kostnað af því. Þetta gera foreldrar t.d. sem kjósa að láta börn sín í einkaskóla.

Um álitamálið hvernig með eigi að fara þegar um sameiginlegt forræði er að ræða eða foreldrar fara saman með forsjá þá hljóta skólalöggjöfin og skólastjórnendur að taka mið af þeim almennu reglum sem um það eru settar í þeirri löggjöf þar sem um slík mál er fjallað. Menntmrn. hefur að gefnu tilefni beint þeim óskum til umboðsmanns barna að hann veiti ráðuneytinu umsögn um það hvernig skynsamlegast sé að bregðast við í slíkum tilvikum. Ráðuneytið mun bregðast við erindum sem um þetta mál hafa borist að fenginni umsögn umboðsmanns barna.