Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:16:54 (754)

1996-11-04 16:16:54# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:16]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Yfirskrift þessarar umræðu er staða jafnréttismála. Ég held að það hafi verið mjög þarft að taka þetta málefni fyrir og vil þakka málshefjanda fyrir að fara fram á þessa umræðu. Við getum sagt að staðan sé góð ef við notum einhver ákveðin viðmið en slæm ef við notum önnur. Við getum sagt að jafnrétti sé orðið fyrir lögum og sé í reynd í íslensku samfélagi en jafnrétti ríkir ekki í raun í öllum þáttum samfélagsins og ég nefni þá fyrst og fremst launajafnrétti. Ef jafnrétti er ekki í reynd alls staðar þá verðum við að skoða af hverju svo sé. Við höfum stuðlað að jafnrétti með lögum en jafnrétti ríkir ekki samt sem áður. Hvað er það sem ræður? Ég segi að það séu viðhorfin í þjóðfélaginu. Og hvernig eigum við að breyta þeim? Það er pólitískur vilji fyrir hendi því eitt af markmiðum núv. ríkisstjórnar er að vinna að auknu jafnrétti kynjanna. Mér finnst það þó nokkuð merkilegt að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skuli vera sett ákvæði þess efnis að vinna skuli að jafnréttismálum, það skuli vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis. Auk þess að stuðlað verði að jöfnum möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin þroska og hæfileika. Það hafa komið fram tillögur úr starfshópi fjmrh. um að skapa sömu tækifæri varðandi laun, starfsframa og fæðingarorlof. Í verkefnaáætlun menntmrn. sem menntmrh. birti nýlega er sérstök áhersla lögð á jafnréttismál og skólum er gert að vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna. Í því sambandi er sérstaklega bent á mikilvægi þess að fræða nemendur um stöðu kynjanna ásamt því að undirbúa bæði kynin undir virka þátttöku í fjölskyldulífi og atvinnulífi og mótun samfélagsins alls. Menntmrn. ætlar í þessu skyni að vinna að því að efla jafnréttisfræðslu sem er mjög mikilvægur þáttur í menntun þjóðarinnar. Félmrn. hefur unnið að jafnréttismálum. Starfshópur um starfsmat, sem hefur verið minnst á í umræðunni, hefur skilað tillögum og þar á að fara af stað með tilraun um kynhlutlaust starfsmatskerfi sem tengist bæði stofnunum ríkisins og fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði.

Landsfundur okkar sjálfstæðismanna helgaði sig jafnréttisbaráttunni og hefur ekki annar stjórnmálaflokkur haft þor til að helga landsfund eða flokksþing sitt þessum málaflokki. (Gripið fram í: Kvennalistinn hefur gert það nokkrum sinnum.) Kvennalistinn hefur vonandi gert það og var stofnaður með þeirri yfirskrift væntanlega en aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki gert þetta fyrr. Þetta þykja mér mikil tíðindi og það á sinn þátt í að viðhorfsbreyting verði, trúi ég. Andstæðingar okkar töluðu um það fyrir fundinn að sjálfstæðismönnum væri ekki alvara með þessari umræðu en ég hef ekki heyrt eftir landsfundinn að því væri haldið fram að ekki væri alvara í þeirri umræðu sem þar fór fram. Menn hafa hins vegar misjafnar skoðanir á því hvernig við tökum á efninu en það er okkar bjargfasta skoðun að meginviðfangsefni varðandi þetta málefni sé að viðhorfsbreyting verði í fyrirtækjum og stofnunum, hjá hverjum og einum einstaklingi gagnvart þessum málaflokki. Aðrir óska mjög gjarnan eftir auknum ríkisafskiptum en hver eiga þau að vera? Jafnréttismál eru mannréttindamál og því eru mjög sterk rök fyrir að það sé forsrn. sem eigi að fara með þennan málaflokk en ekki félmrn. Sjálfstfl. vill eyða kynbundnum og ósiðlegum, eins og hér var nefnt, launamun og það er forgangsmál í þessum málaflokki en enn og aftur tengist það viðhorfum manna. Það er nauðsynlegt að það verði sýndur pólitískur vilji til þess að stuðla að viðhorfsbreytingu og jafnrétti kynja í launamálum. Fleira tókum við sjálfstæðismenn fyrir á landsfundi okkar sem ég held að sé mjög mikilvægt að framkvæma.