Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:06:36 (774)

1996-11-04 19:06:36# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:06]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna í tilefni af seinni ræðu hv. 1. flm. þessa máls. Það fyrra varðar spurninguna um útflutning á sauðfjárafurðum eða dilkakjöti. Það má vel vera að úr því rætist að því leyti að menn geti unnið markað fyrir slíkar afurðir. En ef það gerðist nú svona í meiri mæli og á traustari grundvelli en tekist hefur, er enn þá meira knýjandi, enn brýnna að krafan um auðlindina, beitilandið, sé virt. Til hvers mundi það leiða miðað við núverandi aðstæður ef markaðir opnuðust fyrir mikið magn kjöts af íslensku sauðfé, til hvers mundi það leiða gagnvart gróðurlendinu? Þetta verða menn að taka með í reikninginn. Það verður að skoða dæmið heildstætt og því fyrr því betra, áður en möguleikarnir kannski opnast varðandi útflutninginn vegna þess að þá kann að verða nokkuð erfitt pólitískt að setja kröfurnar.

Hitt atriðið varðar spurninguna um innflutning á landbúnaðarafurðum og yfirleitt stefnuna gagnvart dreifingu landbúnaðarafurða innan GATT-kerfisins og á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég tel að Alþjóðaviðskiptastofnunin og þeir sem að henni standa séu á röngu róli almennt séð varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir, að það sé ekkert vit að ætla að setja þær undir sömu ákvæði og iðnaðarframleiðslu. Auðvitað er álitamál hvernig skattlagningu er háttað og auðvitað geta ofurskattar hitt þá sem þeim er ætlað að vernda. Menn geta gengið of langt í því efni. Það ber að skoða. En það má mikið hafa gerst hjá Alþfl. ef ég skildi rétt síðustu greinargerð frá formanni Alþfl. sem ætlar að stíga úr stól, núna bara í síðustu viku, þar sem hann var að gera ágreininginn vegna GATT-samninganna að meginágreiningsefni við Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórn.