Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:15:38 (789)

1996-11-05 14:15:38# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:15]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var lagt fram í fyrra urðu um það töluverðar umræður og síðan kom í ljós í vinnu hv. efh.- og viðskn. að það var margt að skoða í þessu máli. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að tekið hefði verið tillit til þeirra breytingartillagna sem meiri hlutinn lagði til, en eftir sem áður er ósvarað ýmsum spurningum um áhrif þessa frv. hvað hér er eiginlega verið að gera. Þetta er eins konar einkavæðing á eignum ríkisins úti um land, í þessu tilviki er um að ræða íbúðarhúsnæði, og mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur verið gerð einhver könnun á því hvort ríkisstarfsmenn úti á landsbyggðinni, sem njóta þeirra fríðinda vil ég segja að hafa ódýrt húsnæði frá ríkinu, hafi einhvern hug á því að kaupa það húsnæði sem þeir hafa afnot af? Mér hefur heyrst að ástand ríkishúsnæðis sé með ýmsu móti. Reyndar gildir það kannski einna helst um prestsbústaði, sem því miður hefur víða ekki verið nógu vel viðhaldið, en eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni heyra þau mál undir önnur lög. En það er mín fyrsta spurning hvort yfirleitt sé einhver ástæða til að halda að ríkisstarfsmenn hafi áhuga á að kaupa þetta húsnæði þó að það sé á sérstökum kjörum.

Það sem mér finnst vera mjög stórt atriði í þessu er að það að fá tiltölulega ódýrt húsnæði hefur verið hluti af launakjörum opinberra starfsmanna og hefur orðið til þess að hægt hefur verið að fá fólk úr ýmsum stéttum til þess að koma út á landsbyggðina og vinna. Ef nú ríkisvaldið sviptir þá þessum hlunnindum, eða hvað við eigum nú að kalla þetta, með svona einfaldri lagasetningu, hvað gerist þá? Hefur ríkisstjórnin, sem á væntanlega að fara að semja við opinbera starfsmenn á næstunni, hugsað sér að bæta þeim hópum sem þarna verða fyrir kjaraskerðingu þetta upp? Hvernig hefur hún hugsað sér að taka á þeim þætti málsins? Er það virkilega trú hæstv. fjmrh. að opinberir starfsmenn eigi það mikinn afgang eftir af launum sínum að þeir geti keypt þessi hús þó á sérstökum kjörum sé?

Mig langar líka að fræðast um það sem stendur í 3. gr. Hvernig skilur hæstv. fjmrh. hugtakið ,,þar sem eðlilegur markaður hefur skapast fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu``? Hvað er ,,eðlilegur markaður`` og hvernig ber að skilgreina slíkt ástand? Ég get varla ímyndað mér að það sé eðlilegur markaður hér í Reykjavík hvað varðar húsnæði sem er þó langsamlega stærsta svæðið. Hér hefur verið samdráttur. Hér hefur íbúðaverð verið heldur að lækka sem betur fer, það mátti vel við því. Það hefur verið heldur að færast í jafnvægisátt á leigumarkaði þó að ég telji að það sé enn þá skortur á leiguhúsnæði og fullmikið af lélegu húsnæði á leigumarkaði hér á þessu stóra þéttbýlissvæði og hvað er þá eðlilegur markaður? Við hljótum að leita skýringu á því.

Hv. þm. Pétur Blöndal, sem var hér rétt áðan, hefur iðulega gert það að umræðu í tengslum við húsnæðismál að jafnvel fínustu einbýlishús úti á landi seljast ekki nema fyrir slikk vegna þess að þar er enginn markaður. Þar hefur verið talað um offramboð á félagslegu húsnæði sem sé á mjög óeðlilegu verði og það sé einfaldlega hagstæðara fyrir fólk að kaupa sér húsnæði á almennum markaði heldur en fara inn í félagslega kerfið þannig að ég spyr nú: Hvar er þessi eðlilegi markmaður úti á landi? Ef við lítum á húsnæði í eigu ríkisins sem er utan þéttbýlissvæða, hvar er þá þessi eðlilegi markaður? Það er reyndar miðað við það að húseignir sem á að selja séu í byggðarlögum eða byggðakjörnum með fleiri en 1.000 íbúa en hvernig verður þá verðlagningin á öðrum húsum eða eru þau yfirhöfuð ekki til sölu sem eru utan þessara 1.000 íbúa kjarna.

Mér gefst kostur á að fylgja þessu máli eftir í hv. efh.- og viðskn. en ég tek undir það sem sagt var hér áðan að hér er margt sem orkar tvímælis og ég bíð spennt eftir að heyra viðbrögð félaga opinberra starfsmanna við þeim tíðindum að þetta frv. sé komið aftur á ferð í gegnum þingið.