Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:48:45 (843)

1996-11-06 13:48:45# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:48]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í huga margra togast nú á tilfinningar ógnar og feginleika. Það er vissulega léttir að sá flaumur aurs og vatns sem hlaut að koma hefur nú ruðst fram með sínu heljarafli og það er gæfa að manntjón hefur ekkert orðið í tengslum við þessar hamfarir, hvorki á gosstað né á sandinum. Það skiptir mestu. Mannvirki má endurreisa og þau verða endurreist.

Í hrikaleik náttúruaflanna virðist maðurinn oft ógnarsmár, en þekking hans og vit bætir það upp. Það er ljóst að þær varúðar- og varnarráðstafanir sem gripið var til á sandinum hafa raunverulega orðið til þess að draga úr tjóni á mannvirkjum og það er stórkostleg niðurstaða.

Við höfum heyrt fyrstu viðbrögð stjórnvalda og ljóst er að allir eru sammála um að það tjón sem orðið er verður bætt svo fljótt sem auðið er. Það eru ýmsar leiðir til þess að mæta afleiðingum hlaupsins til bráðabirgða, bæði með loftbrú austur og auknum skipaferðum þar til færi gefst á að endurreisa mannvirkin sunnan jökla. Mestu skiptir að atvinnulíf á Austurlandi verði ekki fyrir alvarlegum áföllum. Á því er skilningur og um það hlýtur að vera samstaða. Við megum hins vegar ekki sofna á verðinum. Enn virðist kvika undir jöklinum og við þurfum því að vera við öllu búin sem fyrr. En svona er Ísland, ekki bara í dag heldur alla daga. Náttúra lands okkar hefur margar hliðar og sýnir okkur ekki alltaf þá bestu. Þegar hún snýr að okkur vondu hliðinni þurfum við að standa saman.