Verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:54:10 (868)

1996-11-06 14:54:10# 121. lþ. 19.3 fundur 92. mál: #A verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eiginlega kemur þetta svar mér á óvart. Þegar ég hlusta á ráðherra lesa upp markmið úr aðalnámskrá grunnskóla eru þetta auðvitað mjög almenn ákvæði um siðgæði og umburðarlyndi, nauðsynleg og sjálfsögð í landi eins og okkar en afskaplega fátæk í raun og veru þegar á að reyna að festa hönd á því hvað sé gert gagnvart því verkefni að reyna að uppræta eða vinna gegn útlendingaandúð.

Ég minnist þess við utandagskrárumræðu meðan hæstv. ráðherra var þingmaður og formaður utanrmn. var einmitt rætt þetta átak sem fram undan var á vegum Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs og við tókum þátt í því, bæði tvö, að koma því á framfæri við Alþingi að þannig ætti að taka á málum. Mér finnst mjög mikilvægt að verkefni sé í gangi til að auðvelda nýbúum að aðlagast. Maður hefur heyrt svo margt um erfiðleika nýbúa. En ég verð að segja að átak sem er sett á laggirnar af Norðurlandaráði með því hugarfari, sem það var sett af stað með, þá held ég að menn hafi ekki séð það fyrir sér að í einhverju landi fælist það eingöngu í átakinu að gerð yrði rannsókn á högum nýbúa og einkum yngra fólks. Ég sá það fyrir mér að farið yrði í markvissar aðgerðir til að vinna gegn því að útlendingaandúð væri í landinu eða yrði. Ég hvet ráðherra til þess, þar sem engin verkefnaáætlun er í skólum og þar sem á eftir að útfæra þessi markmið í aðalnámskrá grunnskóla, að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að þetta sé gert markvisst þannig að við fáum þessa vinnu í gang.