Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:57:19 (898)

1996-11-07 11:57:19# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:57]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ég er sammála því og tók það fram, að það þarf að gera betur og það viljum við gera. Ég held að það sé kannski erfitt, auðvitað má alltaf finna eitthvað en ég held að í langflestum tilfellum hafi Byggðastofnun orðið við óskum frá konum sem hafa viljað stofna fyrirtæki eða gera eitthvað í atvinnumálum sínum. Ég man í svipinn ekki eftir nokkru sem við höfum raunverulega neitað í þeim efnum.

En ég tek það fram að konur eru kannski núna á allra síðustu árum að sækja fram á þessari braut og ég fagna svo sannarlega að það skuli gert.

Hvað það varðar að ekki sé pláss fyrir konur í stjórn Byggðastofnunar, þá hafa setið þar konur í stjórninni. Þar er engin í dag, það má segja því miður, við skulum vona að það breytist en alla vega er það þó ljóst að varamaður minn er kona. Það er þó varamaður sem situr hér með okkur í dag og ég hef trú á því að hún eigi eftir að koma inn í umræðuna. En annað geymi ég mér sem kom fram hjá hv. ræðumanni, t.d. loðdýraævintýrin og allt það, það skulum við ræða betur í dag. Ég efast um að þeir sem hafa talað um þau mál eins og hv. síðasti ræðumaður gerði og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, í þeirri tóntegund, það hljómar illa þegar menn fara að rökræða það mál, sem ég er tilbúinn að gera við þetta ágæta fólk sem hér talar og af mikilli vanþekkingu um þau mál.