Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:46:43 (923)

1996-11-07 13:46:43# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er ekki á ferðinni skæklatog um höfuðstöðvar. Hér er á ferðinni umræða um það hvort standa á við þá stefnu sem Alþingi Íslendinga hefur markað um það hvar miðstöð fræðslu og menntunar í sjávarútvegi skuli byggjast upp á Íslandi.

Í háskólanum á Akureyri hefur á undanförnum árum verið byggt upp árangursríkt fjögurra ára háskólanám í sjávarútvegsfræðum. Það nám höfum við þróað m.a. í samstarfi við starfandi fyrirtæki í greininni og nemendur skólans eru eftirsóttir af fyrirtækjum til rannsóknastarfa og til starfa á vettvangi. Það kom þess vegna sannarlega á óvart þegar skipaður var starfshópur til að gera forkönnun á hugsanlegu fyrirkomulagi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, að ekki skyldi vera meira gert með þá þekkingu og reynslu sem þegar er orðin til við skipulagningu náms í sjávarútvegsfræðum en raun ber vitni. Og mér sýnist, herra forseti, að það hafi gerst það sama og stundum áður, að það hafi beinlínis verið tekin ákvörðun um að hunsa reynsluna eða þykjast ekkert um hana vita, því miður.

Það sem við erum að horfa upp á í vinnubrögðum varðandi þetta mál ber vott um mikinn hringlandahátt stjórnvalda. Stjórnvöld hafa nú ákveðið að hafa bein áhrif á þróun og frekari uppbyggingu sjávarútvegsnáms, bein áhrif á þá þróun að sú uppbygging verði hér. Það er sú byggðapólitíska afstaða sem ríkisstjórnin hefur tekið í málinu. Það er nefnilega ekki bara byggðastefna að byggja út á landi. Og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að mislukkuð byggðastefna síðustu ára og ómarkviss meðferð fjármuna, t.d. hjá Byggðastofnun eins og rækilega hefur komið fram hér í dag, hefur komið inn þeirri tilfinningu hjá landslýð að viðleitni manna til að byggja upp stofnanir annars staðar en í Reykjavík sé vafasöm. Jafnvel þó um sé að ræða uppbyggingu þar sem starfsemin er í sínu eðlilega umhverfi, byggi á reynslu og þekkingu eins og hér um ræðir, tekst þeim sem hagsmuni hafa af uppbyggingunni í Reykjavík að telja mönnum trú um annað og gera málið allt tortryggilegt. Þannig birtist hinn sorglegi árangur byggðastefnu liðinna ára, herra forseti. Það er eins gott að menn séu líka meðvitaðir um það.