Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:23:48 (951)

1996-11-07 16:23:48# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég spyr tveggja spurninga. Í fyrsta lagi fagna ég því að ráðherrann skuli styðja að stytta eigi biðlistann varðandi bæklunaraðgerðirnar. Ég spyr ráðherrann hvort gert hafi verið ráð fyrir viðbótarfjármagni. Það stefnir þegar í 160 millj. kr. í mínus um áramót. Mun það að stytta biðlistann koma niður á annarri þjónustu eða hefur ráðherrann þegar tryggt fjármagn til að stytta biðlistana fyrir bæklunaraðgerðir?

Hæstv. ráðherra verður að skilja hvað hér er á ferðinni. Það er enginn að tala um að ekki sé stuðningur við samvinnu og sameiningu sem getur bætt þjónustuna. Það er ekki verið að tala um það. Það er verið að tala um vinnubrögð ráðherrans. Að ráðherrann skuli ekki upplýsa þingið neitt um það hvað felst í þeirri samhæfingu sem hún ætlar að spara 160 millj. með. Er það með því að leggja niður starfsemi sjúkrahúsanna úti á landi? Er það ekki sanngjörn krafa, hæstv. ráðherra, að fá svör við því með hvaða hætti á að samhæfa, hvað á að sameina til þess að ná þessum sparnaði? Að ráðherra fái ekki bara blankó heimild án þess að þingið viti nokkurn skapaðan hlut um hvað ráðherrann ætlar að gera í þessu efni.

Ég minnist þess, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra var hér þingmaður þá gerði hún eðlilega sínar kröfur um að fá svör við því frá ráðherrum sem þá voru hvað það væri sem þeir væru að biðja um heimildir til. Hér er farið fram á nákvæmlega það sama. Að ráðherrann sýni þinginu þá virðingu að gera þinginu ítarlega grein fyrir hvað felst í þessari samvinnu, sameiningu og samhæfingu sem hún er að tala um. Það er ekki annað að skilja á orðum ráðherrans en að þetta sé komið ansi langt. Þingið á heimtingu á því að vita hvað felst í þessu hjá ráðherranum og hvernig á að ná þessum 160 millj. Það er ekki boðlegt, herra forseti, hvernig hæstv. heilbrr. kemur fram við þingið.