Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:18:33 (1034)

1996-11-12 14:18:33# 121. lþ. 21.11 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:18]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé mál til umræðu sem hljóti að kalla á að menn hafi nokkuð mótaðar skoðanir á vissum hlutum. Persónulega er ég sannfærður um að mestu máli skiptir fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna að samtímagreiðslurnar verði teknar upp aftur. Og jafnframt hitt að námsframvindan sé byggð á eðlilegum kröfum. Þetta eru þau mál sem skipta höfuðmáli fyrir námsmanninn. Hitt atriðið hvernig greiðslubyrðin verður í framtíðinni er allt annað mál. Það er ekki vandamál íslenskra námsmanna og verður ekki. Það hlýtur að vera vandamál þeirra sem eru komnir út í lífið og farnir að vinna fyrir sér.

Ég ætla að vekja athygli á að eitt af því furðulega við íslenska skólakerfið er að manni finnst stundum að það sé svo sjálfstætt í þessum þremur pörtum að það passi ekki saman. Í fyrsta lagi erum við með grunnskóla sem á að skila mönnum upp í framhaldsskólann og framhaldsskólinn segir að brugðist hafi að kenna fólki í grunnskólanum. Svo erum við með framhaldsskóla sem á að skila nemendum upp í háskóla og háskólinn segir að brugðist hafi að kenna fólki í framhaldsskóla. En aftur á móti leiðir þetta hugann að því hvort kennslan í háskólanum sé með eðlilegum hætti. Og hvort hún sé nógu góð, hvort hún sé í samræmi við nútímakröfur og hvort nógu mikil hagsýni sé í þeirri vinnu sem þar er unnin af hálfu skólans. Þar tel ég að menntmrn. hafi brugðist með því að hafna þeirri beiðni Háskóla Íslands að háskólinn fengi sjónvarpsrás. Það var útgjaldalaust fyrir ráðuneytið að samþykkja það en grundvallaratriði þess að hægt væri að beita meiri fjarkennslu og minnka kennslukostnað í skólanum.

Ég ætla að víkja að seinna atriðinu og það er um greiðslurnar. Fullyrt er af öllum að nám sé góð fjárfesting. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í þessum sal halda því fram að svo sé ekki. Ef ekki er hægt að standa að þeim endurgreiðslum sem verið er að tala um í dag, þá vantar mikið á að nám sé góð fjárfesting. Ég held að menn hljóti að vera sammála um það. Annars vegar þurfa menn líka að gera sér grein fyrir hinu atriðinu. Ef Lánasjóður íslenskra námsmanna tekur lán þarf að greiða lánið, hverjir koma til með að greiða það lán, hv. þm. Svavar Gestsson, 8. þm. Reykv.? Annaðhvort þeir sem fara í gegnum skólann eða þeir sem ekki hafa farið í gegnum skólann, þ.e. þeir Íslendingar sem hafa farið í gegnum háskólanám eða þeir sem ekki hafa farið í gegnum háskólanám. Það eru ekki aðrir sem koma til greina að greiða lánið vegna þess að skattþegarnir eru ekki aðrir. Ef þeir sem fara gegnum háskólanámið greiða það hlýtur sú spurning að vakna: Er ástæða til að þeir greiði líka kostnaðinn af námi þeirra Íslendinga sem flytja úr landi? Stór hluti íslenskra námsmanna í dag mun aldrei stunda vinnu hér á landi í framtíðinni vegna þess að ekkert samræmi er á milli þeirrar þarfar sem atvinnulífið hefur fyrir menntun og þess sem útskrifað er úr Háskóla Íslands. Þetta geta menn kynnt sér með því m.a. að fara yfir hversu margir voru í arkitektúr til að átta sig á því hver staðan er.

Þá kemur næsta atriði. Er rökrétt að taka upp sem stefnu að borga stórkostlegar útflutningsbætur með gáfuðum Íslendingum? Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Þetta var gert í austantjaldslöndum, að mennta menn og hvert stefndu þeir þegar þeir voru búnir að mennta þá? Þeir stefndu í vestur til að fá hærra kaup og voru skotnir við Berlínarmúrinn. Hinir vildu halda í sína lækna sem þeir höfðu menntað og hafa þá í störfum heima. Ég skil ekki þá hugsun að það sé vandamál íslenskra námsmanna í sjálfu sér hver endurgreiðslukrafan er. Það hlýtur að verða vandamál launamanna í framtíðinni eftir að menn hafa lokið námi. Og hvað með þennan hagvöxt sem menn eru að boða að sé í augsýn? Og nýja öld sem taki við þegar allir eigi að hafa það betra ef niðurstaðan er sú að ekki sé hægt að borga af þessari fjárfestingu með ekki meiri kostnaði en þó er í vöxtum. Það er aldeilis bjartsýni inn í næstu öld ef svartsýnin er slík núna að menn eru sannfærðir um að geta aldrei borgað þetta. Ég fæ ekki séð að hægt sé að halda því fram að nám sé arðbært ef það er niðurstaðan. En ég er þeirrar skoðunar, og vil undirstrika að hún hefur ekkert breyst, að á sínum tíma, ekki við endurskoðunina sem var framkvæmd af Alþfl. og Sjálfstfl., heldur við endurskoðunina sem var þar á undan lýsti ég þeirri skoðun minni að óeðlilegt væri að hægt væri að spila á það kerfi að menn teldu hagkvæmt að stunda nám á Íslandi en óhagkvæmt að vinna hér. Það væri óeðlilegt að greiða stórkostlegar útflutningsbætur með gáfuðum Íslendingum og ég er enn þeirrar skoðunar. Þegar þeir lýstu saman skoðunum sínum, hæstv. menntmrh. og hv. 8. þm. Reykv., tel ég að hið merkilega hafi gerst að þeir hafi sæst, Heródes og Pílatus, en sáttin var eins og forðum. Hún var á kostnað einhverra. Hún var á kostnað þeirra sem eiga að búa í þessu landi áfram og hafa ef til vill lægri laun en þeir sem best verða launaðir og fara úr landi.

Ef menn vilja hafa eitthvert réttlæti í þessu hljóta menn annaðhvort að taka upp þá reglu að láta menn hafa misjafna endurgreiðslu á sínum lánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eftir því hvort þeir vinna hér á landi í framtíðinni eða erlendis. Og rökin væru þá þau að þeir sem ynnu hér á landi væru að greiða lánin til baka með tveimur aðferðum. Annars vegar með sínum sköttum til íslenska ríkisins og hins vegar í gegnum greiðslurnar til lánasjóðsins. Og þeir sem færu af landi brott og borguðu aldrei skattana til íslenska ríkisins ættu þess vegna að greiða meira en hinir. Ég er ekki að halda því fram að þetta eigi að bresta á ef menn verða við störf erlendis kannski þrjú, fjögur ár eftir að þeir hafa lokið þar námi. En ég tel mjög óeðlilegt, eins og ég hef sagt áður, að sú stefna verði mörkuð að það eigi að vera sjálfsagður hlutur að greiða stórkostlegar útflutningsbætur með gáfuðum Íslendingum. Ég vil heyra rökin fyrir þeirri stefnu, einhver önnur en þau að útlit sé fyrir að þeir verði ekki matvinnungar á erlendri grund nema slík stefna verði tekin upp.