Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:45:05 (1051)

1996-11-12 15:45:05# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér get ég tekið undir efni þessarar tillögu. Ég held að það sé nauðsynlegt að reglur séu til um það hvernig tekið er á breytingum á stofnunum og jafnvel flutningi þeirra en maður spyr sig náttúrlega hvort yfir höfuð sé þörf á slíkum reglum í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að flutningi ríkisstofnana sem hefur verið nánast enginn. Þess eru afar fá dæmi að ríkisstofnanir hafi verið fluttar og maður spyr sig auðvitað hvers vegna. Hvers vegna hefur ekki verið meira um slíkan flutning stofnana? Fyrir því eru margar ástæður, herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnsýslan hefur þróast hér í Reykjavík og verið byggð hér upp. Hér er auðvitað mesta fjölmennið. Hér er mest þörf fyrir opinbera þjónustu. Það breytir ekki því að ýmsar stofnanir geta alveg eins starfað annars staðar og eiga jafnvel heima annars staðar. Undir það get ég tekið. Mér hefur alltaf fundist að ef einhver stofnun ætti að vera staðsett út á landi væri það Byggðastofnun. En það hefur hvergi nokkurs staðar verið önnur eins tregða og þar við því að flytja stofnunina. Nú sé ég að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lítur upp undrandi á svip. Það vill nú svo til að ég var í nefndinni sem samdi tillögur árið 1993 um flutning ríkisstofnana og það var alveg ljóst að gríðarlega mikil andstaða var innan Byggðastofnunar við flutningi. Enda hefur Byggðastofnun farið þá leið að opna útibú. Þá leið held ég, herra forseti, að eigi að fara ef þörf er á vegna þess að við verðum að muna það í þessu máli eins og svo fjöldamörgum öðrum að við erum ekki nema 270 þús. manns í landinu. Mér finnst stundum að menn tali eins og hér búi milljónir sem þurfi á mikilli þjónustu að halda og hægt sé að byggja upp hér mikla stjórnsýslu, jafnvel talað um þriðja stjórnsýslustigið sem mér finnst algjörlega út í hött. Mér finnst miklu nær að stækka sveitarfélögin og að við reynum að einfalda þá opinberu þjónustu sem við rekum hér og þá miklu yfirbyggingu sem ég tel vera í kerfi okkar. Það getur ekki verið að svona lítil þjóð þurfi svona flókið og mikið kerfi. Ég held að við eigum að skoða það mjög alvarlega. Ég bendi á það að menn hafa nefnilega á sumum sviðum farið út í að dreifa þjónustunni og byggja upp miðstöðvar en á öðrum stöðum og í öðrum geirum samfélagsins er verið að stefna í öfuga átt vegna þess að nálægðin verður til trafala. Ég nefni þar t.d. barnaverndarmál. Ég minnist þess að ég átti sæti í nefnd sem var að endurskoða félagslega húsnæðiskerfið fyrir allmörgum árum og þá vorum við einmitt með hugmyndir um útibú frá Húsnæðisstofnun og miklu meiri ábyrgð húsnæðisnefnda en þar einmitt ráku menn sig líka á vegna nálægðarinnar. Við erum svo fá og kunningsskapur og skyldleiki getur oft skipt mjög miklu máli.

Hæstv. forseti. Við flutning ríkisstofnana, sem er auðvitað ekki það sem er á dagskrá heldur það að setja reglur um hvernig skuli staðið að slíku, er grundvallaratriði að starfsemi þeirrar stofnunar sem á að flytja sé ekki rústað og þessu vil ég beina til hæstv. umhvrh. Að stofnunin og starfsemi hennar sé ekki lögð í rúst. Það sýnist mér vera að gerast með flutning Landmælinganna. Ég vil á minna á að nefndin sem skilaði af sér árið 1993 lagði til að Landmælingarnar yrðu fluttar á Selfoss, ekki á Akranes heldur á Selfoss sem er allt öðruvísi atvinnusvæði. Þar kemur að þessu atriði að það er gríðarlega flókið mál að flytja ríkisstofnanir, ekki síst þar sem um er að ræða starfsmenn með háskólamenntun og þar sem makar eru líka með háskólamenntun. Við lifum einfaldlega í þannig umhverfi að fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu eru möguleikar fyrir fólk að nýta menntun sína sérstaklega ef hún er mjög sérhæfð. Þannig að þetta er gríðarlega flókið. Það er mjög mikill munur á því að búa í 100 þús. manna borg eða að flytja í 3.000--4.000 manna bæ úti á landi. (Gripið fram í: Á Selfossi?) Það er annað ef hv. þm. þekkir til á Suðurlandi þá er það svolítið annað umhverfi og t.d. með marga framhaldsskóla. (Gripið fram í: Sjávarútgerð?) Það er líka heilmikill sjávarútvegur. Það er allt öðruvísi atvinnusvæði en Akranes og Borgarfjörður. Það verður þingmaðurinn að horfast í augu við. Fyrir utan það að auðvitað verður alltaf að vega og meta hvort flutningur ríkisstofnana sé hagkvæmur því það getur heldur ekki verið tilgangurinn að leggja aukinn kostnað á ríkissjóð vegna þess eins að flytja ríkisstofnun. Menn verða að spyrja sig þeirrar spurningar hvort stofnunin geti sinnt hlutverki sínu jafn vel þar sem hún á að vera úti á landi eins og hún gerir í þéttbýlinu.

Það er eitt sem ég hafði ekki áttað mig á varðandi Landmælingarnar fyrr en ég ræddi við menn í Háskóla Íslands sem hafa miklar áhyggjur af flutningnum vegna þess að við erum auðvitað að tala um stofnun sem er í samvinnu við ýmsar aðrar stofnanir eins og stofnanir eða ákveðnar deildir innan Háskóla Íslands og menn leysa ekki öll mál í gegnum tölvur. Menn leysa ekki vísindalegar spurningar í gegnum tölvur þegar menn liggja yfir kortum og bera saman upplýsingar og reyna að komast að vísindalegum niðurstöðum. Það er verið að leggja á menn heilmikinn flutning og flutningskostnað og ferðir á milli staða enda kemur í ljós að fólk vill ekki flytja. Hvers vegna ættu Reykvíkingar að flytja frá Reykjavík? Ég bara spyr. Það hefur komið fram í máli hæstv. umhvrh. að þetta sé pólitísk ákvörðun og það virðist vera alveg sama hvað málið á að kosta, hvort það er varðandi uppsögn starfsfólks og það þá að það þurfi að byggja stofnunina nánast upp frá grunni upp á Akranesi eða hvernig þjónustunni verður háttað o.s.frv. Hún skal flutt hvað sem það kostar.

Ég minni á það að þegar nefndin var að störfum árið 1993 lagðist ég algjörlega gegn tveimur af tillögunum og ég skal alveg viðurkenna að mér fannst nokkrar tillögurnar ganga mjög langt og fannst þær ekki skynsamlegar þó ég féllist á að mæla með að þær yrðu skoðaðar. En mergurinn málsins er, hæstv. forseti, að tilgangur flutnings ríkisstofnana er sá að þær geti áfram sinnt þeirri þjónustu sem þeim er ætlað og að starfsemi þeirra sé ekki eyðilögð en því miður finnst mér það hvernig hæstv. umhvrh. hefur staðið að máli Landmælinganna vera skólabókardæmi um hvernig ekki á að standa að málum.