Lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:53:38 (1120)

1996-11-13 13:53:38# 121. lþ. 22.2 fundur 137. mál: #A lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er það svo samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga að refsihámark fyrir stórfellda líkamsárás er fangelsi allt að þremur árum. Hljótist hins vegar stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja sem notuð eru, svo og þegar bani hlýst af líkamsárásinni, varðar brotið allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr.

Eins og sjá má af þessu hafa dómstólar töluvert svigrúm til þess að ákvarða refsingu fyrir stórfellda líkamsárás innan þess refsihámarks sem 218. gr. setur. Ljóst er að stórfelld líkamsárás telst til alvarlegustu brota samkvæmt hegningarlögunum, sem má m.a. sjá af því að 16 ára refsimörkin eru hæsta tiltekna tímamark sem dæma má mann til fangavistar samkvæmt íslenskri refsilöggjöf fyrir utan ævilangt fangelsi.

Hingað til hefur þótt eðlilegt að dómstólum sé veitt þetta svigrúm þótt ákvæðið virðist aðeins veita takmarkaða vísbendingu um hver eigi að vera refsing fyrir stórfellda líkamsárás, þ.e. allt að 3 ár ef brotið er gegn 1. mgr. og allt að 16 ár ef brotið er gegn 2. mgr., má ekki gleyma því að svigrúm dómara í þessum efnum takmarkast nokkuð af því refsimati sem helgast hefur af dómvenju í þessum brotaflokki. Þannig verður að vera samræmi milli þeirra refsinga sem tveir einstaklingar eru dæmdir til ef brot þeirra eru sambærileg. Dómari er því í reynd ekki algjörlega frjáls til þess að dæma mann til 16 ára fangelsisvistar fyrir brot sem dómvenja hefur skapast um að varði 10 ára fangavist í refsidómum svo dæmi sé tekið.

Það getur þess vegna strítt gegn réttlætisvitund manna og reglum um jafnræði að þyngja refsidóma í stórum stökkum. Eðlilegt er að slíkt eigi sér stað með ákveðinni þróun í dómaframkvæmdinni. Hins vegar er eðlilegt að dómstólar bregðist við t.d. mikilli fjölgun brota í tilteknum brotaflokki með því að þyngja dóma. Almenn réttarvitund í þjóðfélaginu getur einnig haft áhrif í þessa átt og ég vil minna á í þessu sambandi að refsingar fyrir kynferðisafbrot eru nú almennt þyngri en þær voru fyrir 10--15 árum síðan.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé þörf á því að þyngja dóma fyrir líkamsárásir og hef áður lýst þeirri skoðun minni á þeim vettvangi þar sem dómarar hafa á hlustað.

Almennt hefur verið litið svo á að dómarar eigi að hafa svigrúm til að meta refsingar innan ákveðins refsiramma. Hefur refsistefna á Norðurlöndunum því verið sú að auka vald dómstóla til ýmiss konar ákvörðunar og mats í þessum efnum. Lögbundin lágmarksrefsing er því fremur undantekning í almennum hegningarlögum hér á landi eins og á öðrum Norðurlöndum, en þó finnast dæmi um slíkt varðandi til að mynda manndráp, nauðgun, brennu og rán þar sem lágmarksrefsingar eru ákveðnar. Það er æskilegt að varðveita svo sem kostur er sjálfstætt mat dómstóla í þessu efni. En skapist verulegt misræmi milli refsiákvarðana dómstóla í þessum og öðrum brotaflokkum annars vegar og almennrar réttarvitundar og siðamats fólks hins vegar, svo og ef brotum fjölgar á þessu tiltekna sviði, er það að mínu mati verkefni löggjafans að bregðast við með hertri löggjöf, t.d. með lögmæltri lágmarksrefsingu fyrir tiltekin brot. Það er kominn tími til þess að hefjast handa við heildarendurskoðun á hegningarlögunum, m.a. með tilliti til álitaefna eins og þeirra sem hér hafa verið gerð að umtalsefni.

Lögin eru komin til ára sinna. Þau eru að stofni til frá 1940 og hafa gengið í gegnum ótal breytingar á umliðnum áratugum sem þarf að skoða í samhengi og samræma svo betri heildarmynd fáist á þessa undirstöðu refsilöggjafarinnar. Það er einnig mitt mat að eðlilegt sé að starfandi sé sérstök fastanefnd sérfræðinga sem annist reglulega endurskoðun refsilaganna og jafnvel sérrefsilagaákvæða líka. Slíkt fyrirkomulag hefur gefist vel, t.d. með starfi réttarfarsnefndar á sviði réttarfarslöggjafar og sifjalaganefndar á sviði sifjaréttarlöggjafarinnar. Ég hef falið lagasviði dómsmrn. að undirbúa stofnun slíkrar fastanefndar um réttarfarsmál og sú nefnd mun m.a. fá til umfjöllunar hvort nauðsynlegt sé að setja lágmarksrefsingar vegna líkamsárása.