Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:52:26 (1153)

1996-11-13 15:52:26# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:52]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ber þá að skilja ummæli hæstv. samgrh. svo að honum hafi ekki verið ljóst fram undir þetta hvað talsímaþjónusta væri? Þarf þá að lesa honum textann í þriðja sinn til að hann átti sig á því? Ég trúi því nú ekki. Ég held að hæstv. ráðherra hafi allan tímann farið nokkuð nærri um hvað talsímaþjónusta er þangað til ég hóf lesturinn hér áðan. Það er ekki rétt að ekki liggi fyrir hver kostnaður vegna símagjalda aldraðra og öryrkja er. Þeir fá aðeins fellt niður fastagjaldið af síma og það er nákvæmlega vitað hvaða einstaklingar þetta eru og hvað þeir eru margir. Það er nákvæmlega vitað hver upphæð fastagjaldsins er svo það er enginn vandi að finna út hvaða kostnað um er að ræða sem Póstur og sími ber í núgildandi kerfi. Og ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort ekki megi treysta því að þeir aldraðir og fatlaðir einstaklingar sem nú njóta þeirra kjara að hafa fastagjald niðurfellt muni njóta þess áfram. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi skýrt fram strax við 1. umr. málsins.