Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:55:25 (1155)

1996-11-13 15:55:25# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki tíma til þess áðan að benda á þá athyglisverðu staðreynd sem kom fram hjá hæstv. samgrh. Hann sagði: Almannavaldið ræður ekki yfir nema takmörkuðum fjölda sjónvarpsrása. Þess vegna verður að skammta aðganginn. Það geta ekki allir fengið. Og vegna þess að almannavaldið þarf að skammta aðganginn, sumir fá en aðrir ekki, er rétt að menn greiði fyrir sem hljóta og eðlilegt að verðið ákvarðist af markaði með útboði. Þetta eru nákvæmlega sömu grundvallarrökin og gilda um veiðileyfagjald. Þar er almannavaldið að skammta aðgang að tekjuöflunarmöguleikum sem ekki allir geta notið, sumir fá en aðrir ekki. Og aðgangurinn felur í sér mikil verðmæti. Þeir sem fá aðgang, fá aðgang að miklum verðmætum. Og er þá ekki með sama hætti eðlilegt að þeir greiði fyrir og að það verð ákveðist af markaði með útboði, eins og hér er lagt til. Ég sé engan eðlismun á þessu sem hér um ræðir.