Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:37:00 (1167)

1996-11-14 11:37:00# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), StB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:37]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir ítarlega og yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fylgdi úr hlaði þeirri starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar sem hér er til umfjöllunar. Það er afar mikilvægt fyrir þingið að fá slíka leiðsögn inn í þá umræðu sem er nauðsynleg og mjög mikilvæg þegar kemur að umfjöllun um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég tel að sú skýrsla sem hér liggur fyrir sýni hversu mikilvægt starf Ríkisendurskoðunar er. Skýrslan ber þess glöggt vitni að þarna er á ferðinni vönduð vinna hjá Ríkisendurskoðun og skýrslan gefur greinargóða lýsingu á því á hvern hátt Ríkisendurskoðun starfar.

Það er þannig að verkefni Ríkisendurskoðunar eru mikilvæg eins og fram hefur komið. Það er nauðsynlegt að fram fari traust endurskoðun á rekstri einstakra stofnana sem eru á vegum ríkisins eða eru kostaðar af ríkinu. Þess vegna er nauðsynlegt að fara vel hverju sinni yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar, hvort sem um er að ræða starfsskýrsluna eða einstaka skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun.

Það er jafnan þannig að skýrslur Ríkisendurskoðunar vekja oft töluverðar umræður. Bæði á það við um skýrslur um framkvæmd fjárlaga, stjórnsýsluendurskoðun og skýrslur sem Ríkisendurskoðun gerir um hinar ýmsu stofnanir. Ég tel að það sé af hinu góða. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fram fari ítarlegar umræður um það sem Ríkisendurskoðun sendir frá sér. Auðvitað eru öll mannanna verk umdeild. En ef engar umræður væru um skýrslur Ríkisendurskoðunar tel ég að þær næðu á vissan hátt ekki tilgangi sínum sem er að vekja athygli á því sem betur mætti fara.

Eins og fram kemur í þessari starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar eru ýmsar nýjungar á sviði opinberrar endurskoðunar eru á ferðinni. Ég vil nefna tvennt. Annars vegar er það handbók sem gefin hefur verið út, en það er mjög mikilvægt að öllum sé ljóst sem starfa í ríkiskerfinu hverjar reglurnar eru sem á að fara eftir, hver eru lögin. Þess vegna er handbókin sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út fyrir forstöðumenn og aðra sem sinna ríkisrekstri afar mikilvægt tæki til að bæta ríkisreksturinn og bæta störf þeirra sem fara með rekstur ríkisfyrirtækja og ekki síst fjármál þeirra.

Annað sem hér hefur verið nefnt er svokölluð umhverfisendurskoðun sem er nýtt viðfangsefni og ég tel að sé eðlilegt að koma á laggirnar. Hins vegar er ljóst að það er mjög vandmeðfarið viðfangsefni og það þarf að marka skýra ramma um það hvernig slík endurskoðun eigi að fara fram.

Eitt er það verkefni sem lítillega er drepið á í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er endurskoðun upplýsingakerfa. Í okkar þjóðfélagi er allt löðrandi, ef svo mætti að orði komast, í tölvukerfum og ýmiss konar upplýsingakerfum sem skipta mjög miklu máli fyrir þjónustu einstakra stofnana og það er ærið verkefni að tryggja að slík upplýsingakerfi séu í lagi og þar fari fram gott verk. Þess vegna held ég að leggja beri mjög ríka áherslu á þann þátt í starfi Ríkisendurskoðunar sem lýtur að endurskoðun upplýsingakerfanna. Ég hefði talið að það þyrfti jafnvel að gera ráð fyrir því að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka skýrslu um upplýsingakerfin því tölvukerfin eru nánast að verða jafnmörg ríkisstofnunum og stöðugt er verið að breyta. Það er að verða hluti af framþróuninni og þessari miklu tölvuvæðingu að búa stöðugt til ný tölvukerfi. Þess vegna er það afar mikilvægt að vel sé fylgst með því starfi öllu. Þess vegna vil ég, virðulegur forseti, hvetja eindregið til þess að þegar fjallað er hér um þessa skýrslu að þeim skilaboðum sé komið til Ríkisendurskoðunar að fram fari ítarleg úttekt á því hvernig skuli endurskoða upplýsingakerfi.

Það kom fram í ræðu hæstv. forseta Alþingis að til stæði að fá virta aðila til að fara yfir störf Ríkisendurskoðunar. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt og muni verða styrkur Ríkisendurskoðunar ef svo verður. En ég vil vekja athygli á því að ég tel eðlilegt að það komist á formlegt samstarf á milli Ríkisendurskoðunar og Háskóla Íslands. Innan Háskóla Íslands er starfandi háskóladeild sem fer með viðskiptamálefni og kennslu í viðskiptafræðum, endurskoðun. Ég tel vel athugandi að þar yrði komið á samstarfi milli Ríkisendurskoðunar og háskólans. Og ég vil vekja athygli á því að Tryggingastofnun ríkisins hefur hafið samstarf við háskólann með þeim hætti að gert er ráð fyrir sérstöku rannsóknarstarfi hjá háskóladeild sem snýst um tiltekin verkefni Tryggingastofnunar. Ég tel að þetta sé til fyrirmyndar og Tryggingastofnun eigi eftir að geta nýtt sér rannsóknir og niðurstöður þeirra í því vandasama starfi sem þar fer fram. Eins teldi ég að ekki væri óeðlilegt að í tengslum við endurskoðunarkennsluna og það rannsóknarstarf sem hlýtur að fara fram á vegum Háskóla Íslands og varðar endurskoðun, kæmist samstarf á milli Ríkisendurskoðunar og þeirra aðila. Það gæti orðið öllum til gagns held ég.

[11:45]

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um skýrsluna. Eins og ég sagði fyrr tel ég að hún gefi mjög glögga mynd af því mikilvæga starfi sem fer fram á vegum Ríkisendurskoðunar og tel að hún hvetji og eigi að geta hvatt okkur þingmenn til þess að fylgjast grannt með því starfi sem fer fram á vegum Ríkisendurskoðunar.