Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:55:06 (1169)

1996-11-14 11:55:06# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), KH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:55]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um efni þessarar skýrslu því það yrði aðeins endurtekning á því sem hér hefur verið sagt. Ég lít á skýrsluna fyrst og fremst sem eins konar áminningu til okkar um mikilvægi þessarar stofnunar og tek undir það sem sagt hefur verið um ómetanlegan stuðning þessarar starfsemi við þingstarfið almennt en ekki síst við það sem ég þekki best til og það er starf okkar í fjárln.

Ég vil fara örfáum orðum um það sem er sagt í skýrslunni um nýjungar á sviði opinberrar endurskoðunar sem vekur sannarlega forvitni mína og áhuga, þ.e. nýjungar á sviði opinberrar endurskoðunar í sambandi við umhverfismál. Eins og sagt er í skýrslunni hafa umhverfismál sífellt meiri áhrif á athafnir stjórnvalda og við þekkjum það að sem betur fer hafa umhverfismál öðlast aukinn skilning meðal almennings og stjórnvalda og eru að nálgast þann sess sem þeim ber í rauninni í stjórnsýslunni. Að mínu mati er það að vísu meira á munnlega sviðinu ef svo má að orði komast, menn hafa fögur orð um umhverfismál og þau markmið sem menn vilja ná. Þau eru göfug og háleit og áætlanir stórbrotnar og verkefnin mörg og stór. Í skýrslunni er vikið að því starfi sem farið er að vinna að í öðrum ríkjum og er verið að taka upp í öðrum ríkjum. Þar kemur í ljós að umhverfisendurskoðun getur t.d. falist í því að meta hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum sínum og verkefnum í umhverfismálum og hvernig þau fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum sínum í umhverfismálum.

Minnst var á þetta áðan. Ég held að það hafi verið hv. 8. þm. Reykv. sem ræddi þetta mál og taldi að Ríkisendurskoðun hefði ekki bolmagn til þess að taka upp þessa nýjung innan þess fjárhagsramma sem henni er búinn. Ég veit ekki til þess að erindi hafi borist til fjárln. þess efnis að Ríkisendurskoðun fengi aukið fjármagn til þess að taka upp þennan nýja þátt í starfsemi sinni og af fljótlegum yfirlestri er ekki ljóst hvort svo er eða hvort einungis sé verið að kynna eitthvað sem æskilegt sé að taka upp en sé ekki beinlínis á döfinni. Af þessu tilefni langar mig til að beina þeirri spurningu til virðulegs forseta Alþingis hvort hann telji að Ríkisendurskoðun geti tekið þennan þátt upp í starfsemi sinni innan þess fjárhagsramma sem henni er búinn núna eða hvort ætlunin er að taka á þessum þætti alveg á næstunni.