Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:24:20 (1175)

1996-11-14 12:24:20# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:24]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að komið hefur fram ósk frá umboðsmanni um að gerðar verði ýmsar breytingar á lögunum um umboðsmann Alþingis. Forsn. fór þá leið að láta semja alveg nýtt frv., ekki eingöngu breytingar á gildandi lagagreinum heldur nýtt frv. sem verður vonandi lagt fyrir Alþingi á næstunni. Ég þori ekki alveg að nefna daginn. Forsn. hefur á nokkrum fundum sínum fjallað um þetta frv. og hefur að sjálfsögðu tekið tillit til ábendinga umboðsmanns um það sem betur megi fara í löggjöfinni og raunar stuðst fyrst og fremst við skoðanir hans sem auðvitað byggjast á þeirri reynslu sem fengist hefur á starfi umboðsmanns Alþingis á undanförnum árum.

Ég get ekki á þessu stigi greint frá hvað það er sem þarna er að breytast, en ítreka það að ég vonast til að við getum sýnt frv. núna á haustþinginu.

Ég vil aðeins bæta við í sambandi við það sem hv. þm. sagði um fjárveitingar til umboðsmanns. Það er rétt að í fjárlagafrv. er ekki sú upphæð sem umboðsmaður fór fram á. Ég hef nýlega skrifað fjárln. sem forseti Alþingis og óskað eftir því að fjárveitingin verði færð til þeirrar upphæðar sem ekki bara umboðsmaður óskaði eftir heldur forsn. samþykkti á fundi sínum í sumar.