Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:46:57 (1181)

1996-11-14 12:46:57# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:46]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis, sem hér er til umræðu, er mikið plagg, en inniheldur þó aðeins fjórðung þeirra mála sem umboðsmaður Alþingis fjallaði um á sl. ári. Ég vil þakka hv. formanni allshn. greinargóða umfjöllun um starfsemi skrifstofu umboðsmanns.

Sérstaklega er getið um það í skýrslunni að þar eru mál valin með tilliti til eðlis þeirra og þýðingu fyrir störf stjórnvalda, sérstaklega þar sem um er að ræða meinbug á lögum, eins og þar segir, sem þýðir með öðrum orðum galla á lögum eða þá að þeim sé áfátt. Þetta vakti sérstaklega athygli mína þegar ég var að fletta skýrslunni og skoða hana. Ég get reyndar ekki varist þeirri hugsun þegar ég var að skoða skýrsluna að með ólíkindum er hve mikill málafjöldinn er, sem umboðsmaður og hans starfsfólk þarf að taka og tekur til umfjöllunar.

Það var ýmislegt sem vakti athygli mína, m.a. hversu oft sömu atriði fara úrskeiðis og ég vil, með leyfi forseta, vitna til orða umboðsmanns Alþingis á bls. 12, þar sem segir:

,,Í störfum mínum hefur það vakið eftirtekt mína, að undirrót margra ágreiningsefna í stjórnsýslu eru oft atriði, sem ekki hefur verið hugað nægilega að við samningu laga. Þetta þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart, þar sem almennt skiptir miklu fyrir starfsskilyrði stjórnsýslunnar, hvernig til hefur tekist um setningu laga. Aftur á móti kemur á óvart, hversu oft sömu atriði fara úrskeiðis, þar sem þeim hefur ekki verið nægilegur gaumur gefinn við lagasetningu. Eru þetta þó atriði, sem oft valda vanda í stjórnsýslu með tilheyrandi kostnaði, fyrirhöfn, skertu réttaröryggi og jafnvel tjóni fyrir almenning.``

Það eru slík atriði, sem eru á nokkuð mörgum stöðum í skýrslu umboðsmanns, sem vekja athygli mína og hljóta að vekja athygli hv. Alþingis því að þarna er beinlínis gagnrýni á störf löggjafarvaldsins.

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál þó rík ástæða sé til og ástæða til að vitna oft í skýrslu umboðsmanns Alþingis. En ég vil aðeins að gefnu tilefni spyrja hæstv. forseta Alþingis og jafnframt hv. formann allshn. um það atriði sem vekur hvað mesta athygli mína varðandi þessa skýrslu. Það eru ábendingar um seinagang kerfisins, sérstaklega hvað varðar ýmis mál þar sem fjallað er um forræðismál. Samskipti einstaklinga við ráðuneyti, dómskerfi, félagsmálaráð og barnaverndarnefndir. Samkvæmt ábendingum sem eru í skýrslunni er yfirleitt engum bréfum svarað eða erindum fyrr en í síðustu lög. Jafnvel á síðasta degi þeirra tímamarka sem lög kveða á um. Lög kveða reyndar á um að bréfum eða erindum skuli svarað þegar þau hafa fengið næga umfjöllun. Það þýðir að það er í valdi þess aðila, sem situr með erindi ef til vill frá einstaklingi, að ákvarða hvenær viðkomandi aðila þóknast að svara. Ég tel að þessar ábendingar séu mjög alvarlegar. Og ég vil spyrja hæstv. forseta og formann hv. allshn. hvort unnt sé að beita sér fyrir breytingu á þessum starfsháttum t.d. með lagabreytingu. Ég tel fyllstu ástæðu til að þetta mál verði sérstaklega athugað eftir þær ábendingar umboðsmanns sem eru á fleiri, fleiri síðum í skýrslunni.

Ég vil minna á að í skjóli þess frests, sem er til að svara erindum, hafa orðið harmleikir innan fjölskyldna sem mér er þó kannski ekki heimilt að greina frá eða fjalla nánar um hér, en þetta eru mál sem varða fyrst og fremst forræði og samskipti foreldris eða foreldra við svonefnt kerfi. Ég hygg að flestum hv. alþingismönnum sé svo farið að þeir séu með upplýsingar um slík samskipti og hafa kannski ekki fundið réttar leiðir til þess að reyna að koma á lagfæringum. Því beini ég þessum spurningum til hæstv. forseta og hv. formanns allshn.

Herra forseti. Það er athyglisverð staðreynd að allt að því 360 mál berast til umboðsmanns Alþingis, venjulega mál sem snúa að ágöllum í samskiptum við stjórnvöld. Það er mjög merkilegt að þau skuli vera svo mörg og það er mjög merkilegt að aðeins skuli vera gerð grein fyrir einum fjórða þessara mála í þessari þykku og miklu bók, sem ég efast um að alþingismenn hafi haft aðstæður til þess að gegnumlesa, mjög vel alla vega.

Herra forseti. Ég má til með að nefna nokkuð sem heitir Mannréttindastofnun. Hennar hlutverk er fræðsla og upplýsingahlutverk aðallega. Það liggur fyrir að sú stofnun telur sig ekki geta sinnt því sem henni ber vegna fjárskorts og liggur fyrir beiðni þar að lútandi hjá hv. fjárln. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis er einnig bent á fjárskort í fangelsisstofnunum og í fangelsum sé þörf á sálfræðingum, þörf á hvers kyns aðstoð og það má lesa óbeinar fjárveitingabeiðnir úr þessari skýrslu.

Ég má til með, herra forseti, að nefna að önnur stofnun, svonefnd mannréttindaskrifstofa, er starfrækt hér á landi. Sú skrifstofa reynir að veita þeim aðilum sem á einhvern hátt hafa lent á milli skips og bryggju, ef svo má að orði komast, með sín vandamál. Ég tel ríka ástæðu til að þeir aðilar sem ég hef nefnt, Mannréttindastofnunin, mannréttindaskrifstofan og umboðsmaður Alþingis eigi samráð um ýmis málefni, um sína starfsemi og helstu hlutverk. Þó skilgreint sé nákvæmlega hvert hlutverk umboðsmanns Alþingis er í lögum tel ég ástæðu til að þessir aðilar stilli sína strengi saman. Mannréttindaskrifstofan hefur verið sá aðili sem hefur reynt að aðstoða þá einstaklinga sem hafa á einhvern hátt lent í árekstrum við stjórnvöld --- ég segi stjórnvöld vegna þess að um er að ræða samskipti við lögreglu, samskipti við ráðuneyti o.s.frv., --- og mannréttindaskrifstofan hefur reynt að leiðbeina þeim einstaklingum sem þannig eru settir. Þessi sama mannréttindaskrifstofa býr við mikinn fjárskort, getur ekki sinnt málum vegna þessa nema að litlu leyti.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að hæstv. dómsmrh. láti sig varða starfsemi mannréttindaskrifstofunnar og þau mál sem hún fjallar um og ég bið að lokum hæstv. forseta að beina þessari athugasemd rétta leið.

Að lokum vil ég þakka góðar ábendingar og greinargóða skýrslu umboðsmanns Alþingis og störf skrifstofu hans.