Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:34:51 (1209)

1996-11-14 14:34:51# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er ekki ætlan mín að bæta miklu við þá greinargóðu umræðu sem fór fram um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir matarhlé. Ég vil þó kveðja mér hljóðs og taka sérstaklega undir athugasemdir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem komu fram áðan og að nefna tvö atriði sem fram hafa komið í umræðunni og ég vil gera ljóst að Kvennalistinn leggur einnig mikla áherslu á þau. Það fyrra er í raun að fagna orðum hæstv. forseta um að fjárveitingar til embættis umboðsmanns Alþingis verði viðunandi á næsta ári því það hlýtur að vera óumdeilt að embætti umboðsmanns beri fjárveitingar sem geri því kleift að rækja skyldu sína samkvæmt lögum óhikað og án tafa. Hitt atriðið er um meinbugi sem bent er á í títtnefndri skýrslu. Athygli vekur að strax í fyrstu skýrslu sem embættið sendi frá sér var bent á að breyta þurfti lagareglum um gjafsókn þannig að umboðsmaður geti vísað þeim kvörtunum er varða réttarágreining til dómstóla. Enn er ekki að finna í lögum ákvæði sem veitir dóms- og kirkjumrh. heimild til að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns. En allshn. hefur áður lagt áherslu á, í áliti sínu, að sú heimild verði veitt. Það skal ítrekað hér, herra forseti.