Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:36:35 (1210)

1996-11-14 14:36:35# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en frv. þetta er að finna sem 146. mál á þskj. 161.

Breytingar þær sem hér eru fram lagðar eru af ýmsum tagi og tengjast að sumu leyti breytingum sem lagðar eru til í öðrum skattafrumvörpum sem ég hef lagt fram og eru á dagskrá þessa fundar. Ég mun í þessari ræðu stikla á stóru um helstu breytingar sem lagðar eru til í frv. og fjalla svo um einstakar greinar frv.

Ein helsta breytingin sem hér er lagt til að gerð verði á lögunum er rýmkun heimildar til yfirfærslu rekstrartaps milli ára. Á árinu 1991 var gerð sú lagabreyting á yfirfærslu rekstrartaps í atvinnurekstri sem myndar frádrátt frá tekjum að í stað þess að vera ótímabundin var yfirfærslan bundin við síðustu fimm ár á undan tekjuári. Eitt meginmarkmið með þessum breytingum var að fella niður heimild til að nýta rekstrartap sem myndaðist fyrir mörgum árum og jafnvel áratugum en verðuppfærsla þess hafði verið nokkuð umdeild. Lögin tóku gildi árið 1992, en samkvæmt þeim á heimild til að nýta rekstrartap sem myndaðist árið 1990 eða fyrr að falla niður í lok þessa árs.

Þegar við gildistöku laganna var bent á að fimm ára tímabil væri skammur tími, bæði í samanburði við þær reglur sem gilda víða annars staðar og ekki síður við íslenskar aðstæður þar sem í senn gætti meiri sveiflna í rekstri milli ára og eins næðu þær yfir lengra tímabil en víðast annars staðar. Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnurekenda þar sem þessi sjónarmið hafa verið ítrekuð. Jafnframt hefur verið bent á að miðað við óbreytt lög verði ekki lengur heimilt að nýta rekstrartap frá erfiðleikaárunum 1988--1990 til frádráttar tekjum, en þessi ár hafi verið fyrirtækjum afar erfið og enn sé mikið ónýtt tap frá þessum árum.

Þessar ábendingar eru réttmætar og í frumvarpinu er lagt til að tímabilið til nýtingar rekstrartaps frá fyrri árum til frádráttar tekjum verði lengt úr fimm árum í átta ár til frambúðar. Vegna sérstakra aðstæðna er einnig gerð tillaga um að heimilt verði að nýta það rekstrartap sem myndaðist á árunum 1988--1990 fram til aldamóta, en tap ársins 1987 og fyrri ára falli niður um næstu áramót.

Í tengslum við þessa breytingu á tapsyfirfærslunni er nauðsynlegt að geta um tillögur um að samræma álagningu tryggingagjalds milli atvinnugreina og stefna að einu gjaldhlutfalli eftir fjögur ár, en það er nú í tveimur þrepum sem kunnugt er. Tillögur um þessa samræmingu eru í frv. til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990 og það er 145. mál þingsins. Samkvæmt þessum tveim tillögum mun tryggingagjald þeirra atvinnugreina sem nú eru í lægra þrepinu (landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður að verulegum hluta, hugbúnaðariðnaður, kvikmyndaiðnaður, gisting, veitingarekstur og bílaleigur) hækka um tæplega 2% af stofni þ.e. af launum. Tryggingagjald annarra atvinnugreina mun hins vegar lækka um 1,35% af launum. Rýmri heimildir til að nýta rekstrartap fyrri ára koma ekki síst mörgum sjávarútvegs- og iðnfyrirtækjum til góða og vegur þannig á móti hækkun tryggingagjalds, en þessar greinar eiga verulegan hluta þess rekstrartaps sem enn er ónýtt frá þessum árum. Auk þess mun breytingin treysta nýsköpun í atvinnulífinu þar sem hún styrkir stöðu ungra fyrirtækja, en fyrstu rekstrarárin eru oft erfið meðan fyrirtækin eru að vinna sér stöðu á markaðnum og bera kostnað af fjárfestingum o.fl.

Það má kannski segja í örstuttu máli að verið sé að setja ,,átta árin`` til frambúðar þar sem menn búist við að hagsveiflan hér á landi í efnahags- og atvinnulífinu sé um það bil átta ár og það getur auðvitað hreyfst til eins og menn þekkja.

Í öðru lagi er í frv. lagðar til breytingar á afskriftareglum og er lagt til að þær verði sveiganlegri en nú er. Með þessum breytingum eru möguleikar fyrirtækja til að bregðast við tímabundnum sveiflum í afkomu auknir og reksturinn þannig treystur án þess að vikið sé frá því meginsjónarmiði að afskriftir ráðist af verðrýrnun varanlegra rekstrarfjármuna.

Ég vona að hv. þm. kunni skil á þessum hagfræðilegu hugtökum eins og varanlegir rekstrarfjármunir. Það eru helst prófessorar í hagfræði sem gera það að sjálfsögðu. En þar mun vera átt við fjármuni sem ekki eru fasteignir en hafa þó tiltölulega varanlegt gildi fyrir atvinnureksturinn.

Veigamikil rök eru fyrir þessari breytingu. Bæði virðast afskriftareglur margra Evrópuríkja mun sveigjanlegri en hér á landi og eins sýnast sveiflur í efnahagslífi og atvinnurekstri meiri hér en víðast erlendis. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs til lengri tíma litið, en gætu leitt til breytinga á greiðsluflæði einstakra ára og þá í báðar áttir væntanlega.

Í þriðja lagi er í þessu frv. lagt til afnám sérstaks hlutabréfafrádráttar einstaklinga. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að sérstök nefnd skipuð skipuð fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vinnur nú að tillögum um breytingar á tekjuskatti einstaklinga sem miða að því að draga úr svokölluðum jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins og vegna mismunandi skattþrepa og tekjutenginga ýmissa bótagreiðslna. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum fyrir áramót og eru því að svo stöddu engar tillögur gerðar er varða þau atriði sem ætla má að nefndin taki á nema um afnám skattafsláttar vegna hlutafjárkaupa. Til þess að skapa nefndinni svigrúm til lækkunar jaðarskatta er hér lagt til að felldur verði niður sérstakur skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa einstaklinga og er gert ráð fyrir að sú breyting taki gildi frá áramótum. Vegna afturvirknissjónarmiða er nauðsynlegt að lögfesta breytinguna fyrir áramót þannig að hún geti skilað fjármunum í ríkissjóð árið 1998. Hafa verður og í huga í þessu sambandi að breytingar sem verða á skattlagningu arðs af hlutabréfum á næsta ári stuðla væntanlega að meiri viðskiptum með hlutabréf og því eru ekki jafngild rök fyrir þessari ívilnun og áður. En sem kunnugt er þá var lögum breytt þegar fjármagnstekjuskatturinn var samþykktur á Alþingi og skattur á arð er núna 10% en áður var hann í sama skattþrepi og tekjuskatturinn en hins vegar sérstakur skattfrádráttur þegar um lægri upphæðir var að ræða og að ákveðnu prósenti sem arður var gefinn út á.

[14:45]

Aðrar helstu breytingar samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu eru í fyrsta lagi að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaga lækkar. Hér er um að ræða flutning á tekjum frá ríki til sveitarfélaga til að standa undir kostnaði vegna flutnings grunnskólans. En það er samkvæmt samningi sem gerður var milli þessara aðila.

Í öðru lagi eru fyrirhugaðar breytingar á reglum er varða málsmeðferð samkvæmt tekjuskattslögunum.

Í þriðja lagi eru ákvæði sem gera réttarstöðu einstaklinga í staðfestri samvist þá sömu og gildir um hjón að því er varðar skattlagningu tekna og eigna og rétt til nýtingar þess skattalega hagræðis sem gildir um hjón. Með þessum breytingum eru ákvæði gildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt löguð að lögum um staðfesta samvist.

Hér er ekki um efnislega breytingu að ræða heldur verið að að kveða sérstaklega á um réttindi og skyldur þessara einstaklinga í skattalögum þar sem eðlilegt þykir að ákvæði um skattalega stöðu sé í þeim lögum frekar en í hinum ýmsu sérlögum.

Í fjórða lagi er lagt til að við útreikning verðbreytingastuðuls verði miðað við vísitölu neysluverðs í stað byggingarvísitölu.

Það er almennt talið, ekki síst hjá þeim sem starfa í atvinnurekstri, að sú viðmiðun, sú mælieining sé betri fyrir atvinnureksturinn í heild en byggingarvísitalan.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar er lúta að skattlagningu fjármagnstekna einstaklinga, þ.e. annars vegar að því er varðar hlutdeildarskírteini og hins vegar að því er varðar einstaklinga sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi. En hvort tveggja eru ívilnandi breytingar.

Þær breytingar munu síðan koma fram, þar á meðal sú sem varðar skattlagningu gengishagnaðar og hlutdeildarskírteini, í sérstöku frv. ef ég man rétt, virðulegur forseti, til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu tekjuskatts og mun ég gera frekari grein fyrir því máli þegar að því kemur. Það er sjálfsagt óþarfi við 1. umr. þessa máls að fjalla ítarlega um einstakar greinar frv. Ég vil þó fara örfáum orðum um greinarnar.

Í 1. gr. er verið að gera breytingu á 8. gr. laganna. Þetta er breyting til samræmis við frv. um staðgreiðsluskatt af fjármagnstekjum en þar er lagt til að staðgreiðsla hlutdeildarskírteina verði tekin við innlausn í stað þess að taka skattinn árlega. 1. gr. fjallar fyrst og fremst um þetta atriði og skýringar er að finna í frv. til breytinga á staðgreiðslulögunum.

Í 2. gr. er fjallað um verðbreytingastuðulinn. Það sem nú er byggingarvísitala verður neysluvöruverð. Vegna tekjuársins 1996 er ákvæði til bráðabirgða. Ég vek athygli á því.

Í 3. gr. er lagt er til að hlutabréfafrádrátturinn verði afnuminn.

Í 4. gr. er fjallað um rekstrartöpin þar sem almennt er gert ráð fyrir að fresturinn til að færa töp liðinna ára milli ára er lengdur úr fimm árum í átta ár. Í bráðabirgðaákvæði er að finna það sem ég hef áður minnst á um að hægt sé að nýta árin 1988, 1989 og 1990 allt til ársins 2000, hvað þetta snertir.

Í 5. gr. eru afskriftareglurnar rýmkaðar. Ég hef þegar lýst því hvernig það er hugsað.

Í 6. gr. er ákvæði um samsköttun einstaklinga í staðfestri samvist. Þetta er ekki efnisbreyting en breyting til samræmis við það sem samþykkt var á hinu háa Alþingi á síðasta þingi.

Í 7. gr. er að finna lækkun á tekjuskattshlutfalli en hækkun mun verða lögð til að sama skapi í öðrum lagafrv. sem hæstv. félmrh. mun flytja.

Í 8. gr. er fjallað um þá sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi, fólk sem t.d. er búsett erlendis og verður að færa hlutfallið til samræmis við það sem er í fjármagnstekjuskattinum, úr 20% í 10%.

Í 9. gr. er ekki nein efnisbreyting, en engin ákvæði gilda í dag um þetta efni. Til þess að skýra afstöðu löggjafans er eðlilegt að setja inn ákvæði um stofnfjárbréf í sparisjóðum þannig að þau séu, ef ég skil þetta rétt, jafngild hlutabréfum og bréfum í samvinnufyrirtækjum.

Í 10. gr. er fjallað um málsferð. Þar eru nokkrar breytingar á reglum um frest til skattstjóra til að endurupptaka mál. Slíkar breytingar er einnig að finna í öðru frv. sem mælt verður fyrir síðar í dag, frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt.

Í 11. gr. er verið að heimila innheimtumönnum aðgang að opinberum skrám. Það hefur verið talið að aðgangur að slíkum skrám sé heimill en þó kemur í ljós að tölvunefnd hefur úrskurðað að skattyfirvöld hafi ekki aðgang að skrám Fasteignamatsins, fasteignaskrá. Hér er verið að taka af allan vafa um þann rétt.

Í 12. gr. er um ábyrgð samskattsaðila að ræða og það nær að sjálfsögðu til sameiginlegrar ábyrgðar einstaklinga í sambúð. Eins og réttindin eru sameiginleg þá mun ábyrgðin verða það líka. Sama gildir um sambúðarfólk og hjón.

Í 13. gr. er breyting í samræmi við gildandi framkvæmd, en það hefur verið talið að fjmrh. geti framselt frestsheimild til ríkisskattstjóra.

Óþarfi er að fjalla um 14. gr. Það hef ég gert áður.

15. gr. er gildistökugrein.

Í 16. gr. eru ákvæði til bráðabirgða sem ég hef gert að umtalsefni áður, annars vegar verðbreytingarstuðullinn fyrir yfirstandandi ár og hins vegar gömlu töpin.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Í því er að finna ýmsar breytingar sem taldar eru mikilvægar fyrir atvinnureksturinn auk þess sem nokkrar leiðréttingar eru gerðar á skattalögunum.

Að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að frv. verði afgreitt til 2. umr. og sent hv. efh.- og viðskn.