Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:41:39 (1251)

1996-11-14 18:41:39# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að ég hefði sagt að Ríkisútvarpið væri rekið af sameiginlegum sjóðum. Ég held að skýrt hafi komið fram í máli mínu að það væri rekið af afnotagjöldum og væri grundvöllur rekstrarins. (TIO: Nei, nei.) Það getur vel verið að ég hafi mismælt mig. Ég leiðrétti það. En ég talaði um að sátt væri í samfélaginu um að ýmis þjónusta væri rekin úr sameiginlegum sjóðum, minntist þar á menntakerfið, heilbrigðiskerfið, við getum sagt samgöngur, vegakerfið o.s.frv. Ríkisútvarpið er rekið af okkur öllum landsmönnum með áskriftarkerfi. Það getur vel verið rétt hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að annan hátt þurfi að hafa á innheimtunni. Það er alveg rétt að óviðeigandi er að halda uppi persónunjósnum um það hvort fólk eigi viðtæki eða ekki. Flestir eiga útvarps- eða sjónvarpstæki og það getur vel verið að einstaklingsgjald þurfi að vera sem greitt er beint til Ríkisútvarpsins. En að gjaldið fari í ríkissjóð sem nefskattur er ekki óhætt því slíkar tekjur skila sér ekki. Mig langar til að benda á eitt atriði. Það er Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins sem hafði markaðan tekjustofn, sem er aðflutningsgjöld viðtækja. Sá peningur hefur ekki skilað sér til Ríkisútvarpsins nema kannski einu sinni, eitt árið, ekki síðan. Ég vil líka benda hv. þm. á það að Ríkisútvarpið styrkir dagskrárgerð hjá einkastöðvunum. Þar eru peningarnir sem fara út Menningarsjóði útvarpsstöðva sem að megninu til samanstendur af auglýsingafé frá Ríkisútvarpinu sem síðan er úthlutað til dagskrárgerðar á einkastöðvunum. Við skulum hafa það hugfast, hv. þm.