Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:06:00 (1266)

1996-11-14 21:06:00# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið og ég get upplýst hv. þm. um að þetta er eitt af þeim sjónarmiðum sem verið er að skoða í þeirri nefnd sem hefur verið margítrekað að er að störfum, þ.e. hagfræðingar á vegum nefndarinnar hafa einmitt skoðað þetta. Það er hárrétt hjá hv. þm., enda er hann glöggur í skattamálum, að þetta mundi breyta heilmiklu og mýkja jaðaráhrifin, ef ég má komast svo asnalega að orði. Ég kalla þetta jaðaráhrif skattkerfisins, ég get skýrt af hverju ég geri það. Það er vegna þess að það er alveg spurning hvort maður á að kalla það jaðarskatta þegar menn missa bætur. Sumar bætur eru í skattkerfinu en aðrar ekki. Menn hafa notað þessi áhrif líka yfir hluti sem eru utan skattkerfisins eins og húsnæðisbætur og endurgreiðslur námslána o.s.frv. Málið er allmiklu flóknara en menn eru oft að gefa í skyn í umræðunum. Naktasta staðreyndin varðandi jaðarskatt er náttúrlega hærra skattþrepið sem hefur verið lagt á til bráðabirgða núna eitt ár í senn ár eftir ár og menn þekkja, svokallaður hátekjuskattur. Allt þetta er til skoðunar og ég held að það sé hollt að hlaupa ekki í einhverju bráðræði í að breyta þessu fyrirkomulagi. Að minnsta kosti eru það held ég hyggindi að eiga eitthvert fjármagn til að leggja í púkkið þegar af þeirri breytingu verður og því vildi ég koma til skila. Ég tek undir sjónarmið hv. þm. en vildi einungis benda á að þau eru til skoðunar.