Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:22:47 (1269)

1996-11-14 21:22:47# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þetta var rætt nokkuð í umræðu um síðasta mál. Ég tek skýrt fram að í raun og veru er sú ákvörðun sem frv. byggir á ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þó tilefnið hafi verið að ESA hafi gert athugasemd þá er ákvörðunin önnur en þaðan kemur. Ákvörðun var tekin um að gera þetta að altækri aðgerð og hún nær til annarra þátta atvinnulífsins en þess sem heyrir undir evrópska efnahagssamninginn. Í upphafi var gert ráð fyrir því að hafa frestinn mislangan eftir atvinnugreinum en eftir að málið hafði verið skoðað rækilega var ákveðið að samræma gjaldið bæði til hækkunar og lækkunar í gegnum allar atvinnugreinar með nákvæmlega sama sniði. Enda þótt við vitum að ESA hafi viljað að það gerðist árinu fyrr teljum við að ástæða sé til að fara svona að og við bendum á það að ESA leggur meira upp úr að prinsippákvörðun sé fest í lög eins og stendur til að gera. Þar að auki stendur ESA í bréfaskiptum við nágrannaþjóðirnar, þar á meðal Norðmenn og líklega Svía líka, um mál af svipuðum toga. Það mun áreiðanlega taka nokkur missiri að fá úr því skorið hvort það þarf að breyta lögum í þeim löndum. Við teljum af þeim ástæðum að óhætt sé fyrir okkur að taka einu og hálfu ári lengri tíma en ESA hefur lagt til.

Lækkun á atvinnutryggingagjaldinu kemur til af því að í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði heldur minna á næsta ári en á yfirstandandi ári og munurinn byggir einfaldlega á þeirri spá eins og reyndar allt fjárlagafrv. hvílir á.