Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 23:04:45 (1300)

1996-11-14 23:04:45# 121. lþ. 24.12 fundur 118. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[23:04]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í máli hæstv. fjmrh. kom fram að málið felur í sér framlög úr ríkissjóði og þá væntanlega Stofnlánadeild sem nemur 140 millj. kr. að áætlað er á þessu ári. Áætlað er að það fari síðan lækkandi en þó þannig að eftir 15 ár muni heildarfjárhæðin, sem hefði fallið niður að óbreyttum lögum, alls numið einum milljarði kr. sem kemur þá í hlut ríkissjóðs að standa undir og þá hugsanlega Stofnlánadeildar. Til skýringa á þessu er eftirfarandi sagt:

Fyrir liggur að lífeyrissjóður bænda hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að taka á sig þau útgjöld sem ríkissjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins hafa borið hingað til, en ráð var fyrir gert að lífeyrissjóðurinn bæri framvegis. Í skýringum segir: ,,Um forsendur vísast til almennra athugasemda.``

Ég fæ ekki séð að almennar athugasemdir séu út af fyrir sig neinar og þess vegna þykir mér rétt að fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann útskýri ögn betur hvers vegna það er fyrirsjáanlegt að lífeyrissjóðurinn hafi ekki þetta fjárhagslega bolmagn.

Í annan stað: Hvernig er þeim virðum þá skipt almennt á ríkissjóð, þ.e. skattgreiðendur beint og hins vegar á Stofnlánadeild landbúnaðarins?

Í þriðja lagi: Þegar sagt er að Stofnlánadeild hafi borið þetta, er það þá ekki dulmál yfir það að þessum kostnaði hafi þá verið velt yfir í verðlag eða vaxtatöku Stofnlánadeildar eftir atvikum? Með öðrum orðum, spurningin er: Er þetta þá ekki kostnaður sem verið er að leggja annars vegar á skattgreiðendur og neytendur?