Svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:27:27 (1324)

1996-11-18 15:27:27# 121. lþ. 26.92 fundur 101#B svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:27]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða sem hér er tekin fyrir. Vissulega getur það að sjálfsögðu komið fyrir í óundirbúnum fyrirspurnum að þingmaður komi í ræðustól og beri upp fyrirspurn um málefni sem ráðherra þekkir ekki gjörla til og verður þá að svara fálega eða láta í ljós að hann þekki ekki málið. Í öðrum tilfellum er verið að bera fram fyrirspurn um mál eða málaflokka. Við getum nefnt það mál sem hér var vísað til. Ráðherra menntamála þekkir að sjálfsögðu mjög vel til Lánasjóðs ísl. námsmanna og allra þeirra þátta sem snúa að honum. Við ræddum þetta mál, ef ég man rétt að tilhlutan Svavars Gestssonar í síðustu viku, og þess vegna er það mál sem hér var spurt um eitt af þeim málum sem ráðherrann þekkir mjög vel og á ekki í neinum vandkvæðum með að svara vilji hann svara.

Þá erum við komin að því hvort þessar fyrirspurnir séu í raun og veru þess eðlis að við höfum leyfi til að bera fram fyrirspurnir til ráðherra og fá svör ef ráðherrann vill. Þetta hlýtur að vera kjarni málsins. Eigum við rétt á svörum eða eigum við bara rétt á svörum ef ráðherra vill svara?

Aðeins vegna þess sem þingflokksformaður Valgerður Sverrisdóttir nefndi um að gefa upp fyrir fram hvaða erindi við séum með, þá var það innleitt í fyrravetur að senda frá okkur miða með fyrirspurnum, efnisatriðum, til ráðherrans. Það getur auðvitað eitthvað gerst á þeirri helgi sem umliðin er sem vekur áhuga þingmanns á að koma með beina fyrirspurn og þess vegna eru þessir fyrirspurnatímar mjög áhugaverðir og nytsamlegir og mjög góður þáttur í okkar þingsköpum. Ég veit að forseti hefur svo mikinn áhuga á því að þinghald gangi vel og að þær reglur sem settar eru um þinghaldið og þingsköpin sjálf virki. Því tel ég það fullvíst að forseti muni taka þær athugasemdir sem hér hafa komið fram til skoðunar og til umræðu í sínum þingflokki.