Svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:33:24 (1327)

1996-11-18 15:33:24# 121. lþ. 26.92 fundur 101#B svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:33]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það hefur komið í ljós að flestallir þingmenn eru sammála um það að umræðan er tímabær. Marggefið tilefni ráðherra í þessum umræðum hafa í raun og veru ýtt undir það að málin verði tekin til endurmats. Ég vil m.a. þakka hv. þingflokksformönnum sem hér hafa talað, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, fyrir þeirra orð í þessum umræðum sem vísa til þess að mál af þessu tagi er sjálfsagt að taka fyrir á vettvangi formanna þingflokkanna og auðvitað forsætisnefndar því að það er alveg ólíðandi að mál af þessu tagi þróist með þeim hætti sem verið hefur.

Ég tel að í svarleysi ráðherrans hafi komið fram, með leyfi forseta, liggur mér við að segja, hroki í garð þingsins. Ég held satt að segja að það eigi ekki að þróa samskipti þingsins og stjórnvalda eins og mér finnst að þarna hafi komið fram.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það er ekki hægt að ætlast til þess að ráðherrar hafi á reiðum höndum upplýsingar um einstök útfærsluatriði í svona fyrirspurnatímum, það er útilokað að ætlast til þess. Það er ekki sanngjarnt og það ætlast enginn til þess. Það sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir spurði um voru ekki einstök útfærsluatriði varðandi lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna eða framkvæmd þeirra. Það sem hv. 12. þm. Reykv. spurði um var í fyrsta lagi: Hvenær kom nefndin saman síðast? Hvenær kemur hún saman næst? Það liggur auðvitað í augum uppi að hæstv. ráðherra er að drepa málinu á dreif með því að svara ekki þessum einföldum spurningum, en hann veit svarið við þeim báðum, a.m.k. örugglega annarri. Það er bersýnilegt að ráðherrann er af pólitískum ástæðum að reyna að snúa sig út úr því að svara þessum spurningum og það er útilokað að bera því við að málið sé svo flókið að hann hafi þess vegna ekki getað svarað spurningunum. Ég treysti hæstv. menntmrh. ágætlega til þess að svara þessum spurningum undirbúningslaust og hann þurfi ekki langan undirbúning í ráðuneytinu eða annars staðar til að svara spurningum af þessu tagi. Þetta eru þannig fyrirkomulagsatriði að ráðherrann á að geta svarað því.

Hitt er svo annað hvort þessir tímar eiga að ganga út á það að ráðherrarnir fái að vita kannski klukkutíma eða tveimur tímum áður hvernig spurningarnar eru. Það finnst mér alveg koma til greina út af fyrir sig. Ég tók eftir því að sumir stjórnarandstæðingar voru ósammála mér í þeim efnum þegar þetta var ákveðið síðast, en ég tel að sumu leyti að það geti bætt innihald þessara tíma ef spurningarnar kæmu til ráðherranna þó ekki væri nema klukkutíma áður en tíminn hefst en það er fyrirkomulags- og samkomulagsatriði sem við hljótum að taka á í sameiningu, m.a. á vettvangi formanna þingflokkanna og forsætisnefndar eins og hér hefur verið nefnt. En ég ítreka spurningu mína til hæstv. forseta: Hvaða úrræðum telur hann unnt að beita til að tryggja að í þessum tímum sé þannig á málum haldið að um sé að ræða spurningar þingmanna og svör ráðherra?