Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:09:12 (1335)

1996-11-18 16:09:12# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:09]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að þessi tillaga er mjög opin. Hér er lagt til að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögu að áætlun. En hvað á að gera við áætlunina þegar búið er að semja hana? Mér finnst að ef Alþingi afgreiðir þess háttar, liggi í hlutarins eðli að Alþingi þurfi að gera einhverja samþykkt um það.

Varðandi vinnutímatilskipun Evrópubandalagsins þá hef ég farið fram á að aðilar vinnumarkaðarins reyni að semja um málið. Ef það hins vegar ekki gengur getur farið svo að við verðum að setja lög sem kveða á um að óheimilt sé að vinna lengur til jafnaðar en 48 stundir á viku á hverju fjögurra mánaða tímabili nema, og ég undirstrika það, (Forseti hringir.) nema með samþykki starfsmannsins sjálfs.