Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:00:29 (1373)

1996-11-19 14:00:29# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti þetta ákvæði er nú ekki mjög frábrugðið því sem er nú þegar í lögum. Og það eru ekki gerðar breytingar á ákvæði um að heimilt geti verið að hafna vinnu fjarri heimili samkvæmt mati úthlutunarnefndar m.a. á grundvelli heimilisástæðna umsækjanda. Með heimilisástæðum er átt við fjölskylduástæður þar á meðal heilsufar fjölskyldumeðlima umsækjanda. Ég veit að það eru dæmi þess að starfsfólk hefur beinlínis verið hlunnfarið með þeim hætti sem hv. síðasti ræðumaður var að nefna en ég vona að þau dæmi séu fá og þeim hlutum verður að kippa í lag. Það er náttúrlega ekki meining þessa frv. eða mín að fara að standa í einhverju þrælahaldi, síður en svo. Það eru dæmi þess að atvinnurekendur hafi komið óforsvaranlega fram við starfsfólk en sem betur fer þá hygg ég nú að það sé fátítt.