Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 15:54:21 (1385)

1996-11-19 15:54:21# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:54]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Í upphafi þykir mér rétt að leiðrétta það sem mátti skilja af máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að hv. þm. Ögmundur Jónasson, jafnframt formaður BSRB, og Hervar Gunnarsson, einn af varaforsetum ASÍ, hefðu sagt sig frá starfi nefndarinnar. Það er rétt að taka fram að nefndin hélt, ég held ég fari rétt með, 28 fundi og þeir félagar sem ég nefndi áðan störfuðu allan tímann, sátu þessa 28 fundi en hins vegar skiluðu þeir séráliti um annað frv. Nefndin stóð öll að frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir en þeir sem ég nefndi áðan skiluðu hins vegar séráliti um nokkur tiltekin atriði. Þá kom jafnframt fram í máli hæstv. félmrh. að hæstv. félmrh. hefði tekið inn í það frv., sem hér er til umræðu, flest af þeim atriðum sem þeir fjölluðu um í minnihlutaáliti sínu. Mér þykir því rétt í upphafi að minna á þetta og leiðrétta þann misskilning sem kom fram í ræðu hv. þm.

Ég harma einnig að ekki skyldu þessi frv. vera rædd bæði saman, þ.e. frv. um vinnumarkaðsaðgerðir og frv. til laga um Atvinnuleysistryggingasjóð, því í rauninni tel ég útilokað að fjalla um annað án hins. Eins og m.a. hefur komið fram í ræðu hæstv. félmrh. og í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar var litið svo á í nefnd þeirri sem skilaði tillögum til hæstv. félrmh. að frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir og þær ráðstafanir sem þar er gert ráð fyrir væru forsenda þess sem fylgdi í hinu frv.

Það er rétt að líta aðeins nokkra áratugi aftur í tímann og má segja að í það heila tekið hafi Íslendingar borið gæfu til að hafa næga vinnu frá síðari heimsstyrjöldinni. Þó hefir ávallt komið tímabundið atvinnuleysi sem gjarnan hefur mátt tengja við tímabundnar sveiflur tengdar vertíð, sláturtíð og hinum hefðbundnu atvinnugreinum sem voru lengst af og eru ráðandi hér í dag. Með öðrum orðum hefur atvinnuleysið eins og Íslendingar hafa þekkt það á þessari öld verið háð sveiflum í hinum hefðbundnu atvinnugreinum. Má segja að þau lög og þau úrræði sem við höfum starfað eftir hafi tekið mið af þessum bakgrunni, tímabundnum sveiflum tengdum vertíðum, sláturtíð og þar fram eftir götunum. Það er líka ljóst að atvinnulíf okkar er að breytast. Segja má að við séum núna að fara um sumt í gegnum róttækt breytingaskeið í atvinnulífi þjóðarinnar. Við sjáum hvað hefur verið að gerast í sjávarútvegi. Sú hagræðing sem þar er að nást fram hefur m.a. leitt til þess að störfum hefur fækkað, bæði sjómannsstörfum og í fiskvinnslu. Það fylgir tækniþróun, hagræðing og áfram má telja. Öllum er í fersku minni það sem hefur verið að gerast í landbúnaði og þeirri byggðaþróun sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum má segja þar sem fólk hefur hægt og bítandi verið að flytja úr sveitum og sjávarþorpum landsins á mölina eða til höfuðborgarinnar þar sem núna býr um það bil helmingur þjóðarinnar.

Við erum til allrar hamingju að upplifa að upp spretta nýjar atvinnugreinar. Ég nefni ferðaþjónustu, ég nefni tölvuiðnaðinn og áfram má telja að ógleymdri þjónustunni sem líklega má kalla mannfrekustu atvinnugrein í landinu. Þessu fylgir hér eins og annars staðar stöðugt vaxandi krafa um aukna menntun, sérstaklega þó starfsmenntun. Þetta þýðir með öðrum orðum að þjóðin er á viðkvæmu og erfiðu breytingaskeiði í atvinnulegu tilliti og ég tel að framkvæmd og hugmyndafræði um atvinnuleysi hafi ekki tekið mið af þeim breytingum sem hafa verið að eiga sér stað og eru að eiga sér stað.

Hins vegar, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. í dag, m.a. hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, er atvinnuleysi að verða varanlegt. Við erum að upplifa að jafnvel önnur kynslóð fólks, ungt fólk, elst upp við atvinnuleysi foreldra sinna og lendir sjálft í þeim hörmungum sem atvinnuleysið er. Ef við lítum hins vegar á umhverfi núgildandi laga og framkvæmd þeirra kemur mjög glögglega fram hvað sá þáttur hefur lítið fylgst með þróun er ég gat áðan um hér í atvinnulegu tilliti.

[16:00]

Segja má að lög um Atvinnuleysistryggingasjóð eins og þau hafa verið framkvæmd að undanförnu hafi að mestu verið rekin á þeirri hugmyndafræði að um sé að ræða skráningu og eftirlit. Miklu minna um skipulega leit, atvinnuleit fyrir það fólk sem hefur lent í þeirri ógæfu að verða atvinnulaust. Til allrar hamingju eru á þessu nokkrar undantekningar. Ég nefni sérstaklega Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar og það sem hefur verið unnið þar á síðustu missirum undir forustu Oddrúnar Kristjánsdóttur. Ég nefni vinnumiðlun sem verkalýðsfélagið á Akranesi hefur staðið fyrir. Ég nefni það sem Akureyrarbær hefur staðið fyrir og nokkra slíka staði. En í heildina tekið er um að ræða skráningu og eftirlitsþátt í stað þess að vera vinnuleit og koma fólki af atvinnuleysisskrá. Vitaskuld er ekki hægt að útrýma atvinnuleysi með lögum. Það segir sig sjálft en mér finnst eiginlega hafa gætt þeirrar tilhneigingar í ræðu nokkurra hv. þm. að með lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð væri hægt að afnema atvinnuleysi. Það gerist á öðrum stað. Hér er einungis verið að fjalla um frv. sem fjallar um Atvinnuleysistryggingasjóð en það er eitt af þeim tækjum sem samfélagið hefur ákveðið að nota til þess að styðja þá sem lenda í hörmungum atvinnuleysis.

Fólk hefur verið mjög rígbundið við svæði á landinu. Ég nefni sem dæmi að þegar skipaiðnaðurinn tók að rétta úr kútnum norður á Akureyri og vantaði fólk í málmiðnaði voru þó nokkur dæmi um atvinnulaust fólk í málmiðnaði sunnan lands. Vitaskuld er erfitt að taka á þessu en við þurfum samt að skoða landið. Hvar er vinnu að fá og hvernig fylgir byggð því. Við verðum líka að viðurkenna það sem hefur komið fram í viðtölum, m.a. í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Í viðtölum við fólk sem starfar á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs og við hinar ýmsu vinnumiðlanir landsins, er mjög algengt að fólki sem er boðin vinna neitar þeirri vinnu af ýmsum ástæðum og starfsfólk vinnumiðlana hefur í rauninni átt mjög erfitt með að bregðast við eða rengja þær ástæður sem fólk hefur gefið upp við neitun.

Við skulum líka ræða það opinskátt, þó ekki hafi verið gerð vísindaleg úttekt á því, að mjög sterkur grunur leikur á því að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi verið misnotaður. Fólk vinni svonefnda svarta vinnu en sé á bótum. Og það særir réttlætiskennd fólks sem stritar daglangt fyrir skítakaupi, lágu kaupi, horfir síðan upp á nágranna sína vinna svarta vinnu en njóta stuðnings úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál en við þurfum samt að ræða það opinskátt. En ég hygg nú engu að síður að dálítillar tilhneigingar gæti til þess að ofgera þennan þátt en hann er óréttlátur eigi að síður.

Þá er vert að hafa í huga að atvinnuleysi er mest meðal þeirra sem eru ófaglærðir, þeirra sem ekki hafa notið skólagöngu eða aflað sér starfsmenntunar. Enda kemur fram í skýrslum frá OECD, í skýrslum frá ESB og fleiri alþjóðlegum stofnunum að sem úrræði til að leysa atvinnuleysi er lögð mjög þung áhersla á að efla starfsmenntun sem vopn í baráttu einstaklings gegn atvinnuleysi.

Það hefur líka verið vandamál að mörg grá svæði hafa myndast þar sem nokkuð óljóst hefur verið hver fer með þessi málefni. Um sumt er það ríkið, um sumt eru það sveitarfélög, um sumt eru það verkalýðsfélög en heildarsýnin hefur ekki verið til staðar. Undan þessu hefur verið kvartað af ýmsum aðilum.

Þá er rétt að benda á stöðu svonefndra einyrkja, sérstaklega trillukarla, vörubílstjóra og bænda, að lagarammi hefur ekki verið tilbúinn til að taka við þeim þegar þeir missa sinn atvinnurekstur. Áfram má telja en þetta er í rauninni sá bakgrunnur sem málefni atvinnuleysis eru byggð á í dag og sá bakgrunnur sem núgildandi lagarammi er sprottinn upp úr.

Markmið frv. er að reyna að taka á þessu máli. Þetta eru viðkvæm mál, þetta eru erfið mál en ég hygg að allir séu sammála um að koma þurfi á breytingum. Hér hafa ýmis stór orð verið látin falla og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að nefnd sú, sem oft hefur verið gerð að umtalsefni í þessari umræðu, er ekki með patentlausnir en það þori ég að ábyrgjast að hver einasti nefndarmanna lagði sig fram um að skila sínu besta og ég efast ekki að hv. félmn. mun skerpa á ýmsum ákvæðum sem hafa komið fram í umræðunni og er lagfæringa þörf. Meginatriði er að hreyfa þessu máli. Um það eru allir sammála.

Mig langar aðeins, á þeim stutta tíma sem hér er til ráðstöfunar, að nefna nokkur þau atriði sem ég tel skipta mestu máli við þessi frv. Það er í fyrsta lagi að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að sérstök stofnun, ekki deild í ráðuneyti heldur sérstök stofnun undir yfirstjórn aðila vinnumarkaðarins fari með þessi mál. Ég tel það vera afskaplega mikilvægt til þess að heildarsýn náist og skilvirkni aukist. Þetta tel ég afskaplega mikilvægt.

Í öðru lagi er vert að benda á það að gert er ráð fyrir svæðisvinnumiðlunum og þar er í rauninni, ef svo má segja, grasrótin í þeirri stofnun sem um er að ræða. Og til að fyrirbyggja þann misskilning að um miðstýrða stofnun verði að ræða þá er gert ráð fyrir að hver svæðisvinnumiðlun á hverju svæði hafi sérstaka stjórn skipaða heimamönnum. Heimamönnum úr atvinnulífi og úr framhaldsskólum þess svæðis vegna þess að það eru heimamenn --- fulltrúar atvinnulífsins, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sem hafa besta sýn yfir stöðu mála, atvinnumála á sínu svæði og eru líklega færastir um að leysa þau mál sem upp koma.

Það var lögð mikil áhersla á það í nefndarstarfinu og í tillögum nefndarinnar að starfsfólk svæðisvinnumiðlana verði mjög virkt í heimsóknum til fyrirtækja til að skapa gagnkvæmt traust á milli þessara svæðisvinnumiðlana og þeirra fyrirtækja og fólks sem býr á því svæði. Það tel ég vera afskaplega mikilvægt og kannski lykilatriðið. Og hér er ekki einungis verið að ræða um vinnumiðlun fyrir atvinnulaust fólk heldur líka fyrir það fólk sem vill skipta um atvinnu. Það er rétt að skjóta því inn að gert er ráð fyrir að allar svæðisvinnumiðlanir og undirstofnanir þeirra verði tölvutengdar þannig að einstaklingar eigi að geta komið inn á hvaða svæðisvinnumiðlun sem er og fengið yfirlit um þau störf sem vonandi verða í boði á landinu öllu. Ég nefni líka gildi þess að litið verði á landið sem eitt vinnusvæði og verið er að fjalla um fólk sem er á vinnumarkaðinum, þ.e. bæði þá sem eru starfandi og þá sem hugsanlega eru atvinnulausir.

Ég get tekið undir þá gagnrýni sem fram hefur komið að sá styrkur eða þær bætur eða hvaða orð menn vilja nota sem ætlaðar er hinum atvinnulausu eru skammarlega lágar. Þar er auðvitað ákveðinn vandi sem snertir þá launastefnu sem almennt er í landinu og um það eru flestir sammála. Lægstu laun eru skammarlega lág. En við þurfum samt að horfast í augu við að það hlýtur að vera í alla staði eðlilegt að hvetjandi sé fyrir einstakling að stunda vinnu frekar en að vera ekki í vinnu. Um það hygg ég að flestir séu sammála.

Ég vil líka nefna það ákvæði sem er fjallað um í frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir þar sem reynt er að benda á þau úrræði sem tengjast svokallaðri skylduvirkni. Það er rétt að leggja verulega þunga áherslu á það, ef tekst að framkvæma þetta þá er það kannski eitt af þeim atriðum sem skipta hvað mestu máli, þ.e. í fyrsta lagi að vera með skilvirka vinnumiðlun. Í öðru lagi að þjónustan þar verði mjög styrkjandi fyrir einstaklinginn og hverjum einstaklingi sé hjálpað og hann aðstoðaður og hvattur til að gera vinnuleitaráætlun. Takist ekki að finna hefðbundin launuð störf er gert ráð fyrir því að svæðisvinnumiðlun með fyrirtækjum og atvinnulífi á svæðinu bjóði störf af ýmsum toga sem ekki er tími til að rekja hér en ég vísa til skýringar við 10. gr. í frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Þar er fjallað um nýsköpun. Við erum að reyna að tengja þátt nýsköpunar inn í þetta, leita að nýjum tækifærum, endurmenntunarstefnu fyrirtækja, tilraunir með sveigjanlegan vinnutíma o.s.frv. Ég vísa til þessa þáttar.

Hér hafa ýmsir hv. þm. gert töluvert úr ákvæðunum um fimm ára hámarkstíma. Vitaskuld er það viðkvæmt atriði og verður örugglega lengi umdeilt. En ég bendi á hvað er í gildi í okkar nágrannalöndum. Danir eru á sömu leið, Svíar eru með innan við tvö ár hjá þeim sem eru undir 60 ára. Ég bendi á Þjóðverja, Hollendinga og okkar helstu samkeppnisþjóðir. En ég bendi líka á að við erum ekki að tala um samfelld fimm ár. Við getum tekið dæmi af einstaklingi sem hefur verið atvinnulaus í eitt ár, fær síðan vinnu í hálft ár og missir þá vinnu, hann hefur þar með bætt þessu hálfa ári við rétt sinn til bóta. Þannig að við erum ekki að tala um samfelld fimm ár.

Ég vil líka leiðrétta þann misskilning sem hefur komið fram í ræðum nokkurra hv. þm. um 18 ára ákvæðið. Það er ekki verið að banna fólki að vinna. Hins vegar er verið að leggja þá meginstefnu að unglingur, segjum 17 ára gamall sem missir atvinnu, hvort er hann betur kominn á bótum eða að afla sér starfsmenntunar? Ég vil vitna til þess sem er m.a. að gerast í skólakerfinu. Ég bendi á þær starfsmenntabrautir sem eru að koma upp í Borgarholtsskóla, hinum nýja, í Reykjavík. Ég bendi á það sem er að gerast í Menntaskólanum í Kópavogi, í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þar sem er að koma inn fjöldi af nýjum starfsmenntabrautum og þær munu verða komnar innan fárra missira í flesta skólana. Og ég segi: Það er hiklaust heppilegra fyrir ungan mann eða konu að vera í starfsnámi að afla sér starfsréttinda en að vera á atvinnuleysisbótum.

Tími minn er að renna út og mér gefst ekki tími til að fara yfir alla þætti en meginatriðið er að gert er ráð fyrir því að byggja upp og styrkja einstakling til að vera virkan í stað þess að einangrast félagslega. Allar rannsóknir sýna að sá sem lendir í ógæfu atvinnuleysis (Forseti hringir.) hefur slæm félagsleg áhrif á skömmum tíma og meginhugsun nefndarmanna er sú að byggja upp, styrkja og hvetja og ég vonast til að félmn. muni fordómalaust og af jákvæðum huga skerpa á þeim þáttum (Forseti hringir.) sem þarf að skerpa á.