Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:19:54 (1418)

1996-11-19 19:19:54# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:19]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en svarað ákalli hæstv. umhvrh. um að taka til máls í þessari umræðu. Ég hafði ekki ætlað mér það en þar sem hann saknaði áheyrenda og ég var hér alveg við höndina, þá náttúrlega kom ég og varð við þessu ákalli.

Það er verið að breyta lögum frá 1990. Núgildandi lög fjalla eingöngu um stofnunina Landmælingar Íslands, en þetta frv. felur í sér ákvæði um landmælingar og kortagerð í heild sinni. Ég tel að það sé vel. Það er gert ráð fyrir að ríkið reki þessa stofnun sem ber áfram heitið Landmælingar Íslands og að hún heyri undir umhvrh. Ég tel að það sé af hinu góða. Í 6. gr. er fjallað um heimildir til þess að Landmælingar Íslands þurfi ekki að annast öll verkefni og megi gera samninga þar að lútandi og ég tel að það sé gott mál.

Ég lít svo á að samstarf verði á milli Vegagerðar, Landmælinga, Landsvirkjunar og Orkustofnunar og að um þau verkefni í kortagerð, sem eðlilegt er að þessar stofnanir vinni saman, verði eins og verið hefur. Ég spyr hvort ráðherra sé sammála því að það sé eðlilegt framhald þeirrar vinnu.

Aðeins um stofnunina sjálfa og búnað hennar. Ég get sagt að ég hef áhyggjur af búnaði svo sem tölvum og ýmsum tæknibúnaði. Ég held að hann sé gamall og ég held að hann sé úr sér genginn að sumu leyti. Sum tækin eru t.d. 30 ára gömul og ég held að úr því verði að bæta. Ég spyr um álit hæstv. umhvrh. á þessu efni.