Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:55:04 (1444)

1996-11-20 13:55:04# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:55]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er augljóst mál að það er full þörf á því að fara yfir þetta mál og gera glöggan greinarmun á því gagnvart hæstv. ráðherrum hvenær verið er að biðja um þeirra skoðanir og hvenær ekki. Í því sambandi af því að ég á hér orðastað við hæstv. fjmrh. vil ég minna á að hann er með í sínu ráðuneyti til umfjöllunar fyrirspurn frá undirrituðum um skatttekjur af viðskiptum með aflaheimildir þar sem annars vegar er spurt um tölur og hins vegar beint spurt um það álit ráðherrans hvort hann telji að þær skatttekjur skili sér að fullu og öllu. Þar eru því alveg glögg skil á milli.

Í þeirri fyrirspurn sem hér til umræðu eru hreinar og klárar spurningar um tölfræði og það er augljóst mál --- það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að hrista hausinn yfir því. Við skulum bara setjast yfir það og ég skal lesa þetta fyrir hann. (Gripið fram í.) Jú, jú, hann getur hrist hausinn eins og hann vill ef það hjálpar honum, en þetta er bara veruleiki málsins. Ég hef ekki tíma í þessari umræðu til að fara yfir þær spurningar sem hér eru. En þetta liggur fyrir á þessu þskj. Ef hæstv. ráðherra er í vandræðum með að lesa úr því hvort verið er að spyrja um skoðanir viðkomandi ráðherra eða tölfræði og efnislegar staðreyndir þá er eitthvað alvarlegt á seyði í þessum sal. Þá eru skoðanaskipti og boðskipti milli þings og framkvæmdarvalds á mjög hálum ís, svo ekki sé meira sagt. (Fjmrh.: Það stendur það sem ég sagði.)