Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:56:38 (1445)

1996-11-20 13:56:38# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:56]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur komið fram að fyrirspurnir ráðherra séu raunverulega ekki fyrirspurnir til ráðherra heldur virðist það vera hugsað þannig að þær eigi að vera að nafninu til til ráðherra en í reynd eigi stofnun úti í bæ að svara. Þessi uppsetning á slíkum fyrirspurnum finnst mér dálítið skrýtin. Hérna er t.d. fyrirspurn frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur: ,,Hvert er viðhorf ráðherra til þeirra samninga um sölu lambakjöts ...?`` Hvaða stofnun á að lýsa viðhorfum ráðherrans ef það er ekki hann sjálfur?

Ég held að þegar þingmenn taka sig til og koma með svona lagað, þá verði þeir náttúrlega að átta sig á því að það er ekki víst að þó að einhver stofnun sé að mestu leyti mönnuð krötum, að það sé öruggt að menn lesi það hrátt upp sem viðkomandi kratar svara öðrum krötum sem ákveða að spyrja um hlutina hér í þinginu. Ef þetta væri þannig, þá væri þetta ákaflega einfalt mál. Þá mættu ráðherrarnir ekki hugsa. Þá væri bara hægt að senda þetta á faxi hingað niður eftir. Þá ætti líka að hætta að spyrja ráðherrana. En það er hægt að orða þetta þannig að þeir fái svörin frá krötunum með því að spyrja bara: Hvert er viðhorf Húsnæðisstofnunar til þessara hluta? Orða spurninguna þannig að það komi fram hvað þeir eru að biðja um. (Gripið fram í.) Þeir eru að biðja um að ráðherrann lesi upp það sem kratarnir í Húsnæðismálastofnun segja. (SvanJ: Ertu að verja þessi vinnubrögð?) Ég er að tala hér. Er hv. þm. það ekki ljóst? Hér talar hv. þm. eins og hann einn viti allt um öll heimsins þing, hér rétt áðan. Það er aldeilis að það er völlur á viðkomandi. Ég veit ekki til þess að viðkomandi hafi verið þingmaður í öðru landi en þessu. Ég hef ekki verið þingmaður annars staðar í það minnsta.