Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:52:01 (1650)

1996-12-02 16:52:01# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:52]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Garðyrkjan er mikilvæg atvinnugrein. Framleiðsluverðmæti græna geirans er rúmlega 1 milljarður kr. á ári, garðyrkjubýli á Íslandi eru um 115 og ársverk í garðyrkju talin vera um 450 eða um 7% af ársverkum í landbúnaði. Það er talið að störf í þjónustu tengdri blóma- og grænmetisframleiðslu séu um 800 og garðyrkjan er reyndar eina grein landbúnaðar þar sem ársverkum hefur fjölgað verulega á síðustu árum.

Það hefur verið sýnt fram á að 85--88% af framleiðslukostnaði innlendra blóma og grænmetis séu innlend aðföng. Það má því ljóst vera að það skiptir miklu máli hvernig íslensk framleiðsla mun þróast á komandi árum. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem hæstv. landbrh. skipaði fyrir ári og hér hefur verið minnst á. Nefndin skilaði skýrslu í febrúar sl. Nefndin fór mjög ítarlega yfir stöðu greinarinnar og ræddi við marga þar að lútandi. Það virtust vera tvö mál sem væru höfuðáhyggjuefni þeirra sem við greinina starfa. Annars vegar raforkuverðið og hins vegar sjóðagjöldin.

Áhyggjur manna af orkuverði stafa fyrst og fremst af því að samningur um afslátt á raforku til garðyrkju, sem gerður var árið 1992, rennur út í árslok 1997 og það hefur komið skýrt fram hjá bæði Landsvirkjun og Rarik að sá samningur verði ekki framlengdur. En sá samningur sem gerður var 1992 hefur leitt til stóraukinnar raflýsingar í garðyrkjunni eða úr 1,3 gwst. árið 1985 í 13,5 árið 1995 og talið að hún verði komin í 34 gwst. árið 2000. Nefndin lagði á það mikla áherslu að komið verði í veg fyrir að afsláttur á raforku falli niður og einnig að tekið verði á sjóðagjöldunum þannig að þau verði ekki lögð á garðyrkjubændur á þeim tíma árs sem þeir eru í samkeppni við innflutning. Ég legg mikla áherslu á að lausn fáist á þessum tveimur atriðum og treysti hæstv. landbrh. vel til þeirra verka.